Starfsreglur Vísindasjóðs Félags sjúkraþjálfara
Samþykktar á aðalfundi FS, 9. mars 2021
1. Heiti sjóðsins og varsla
1.1. Sjóðurinn heitir Vísindasjóður Félags sjúkaþjálfara (FS). Hann er í vörslu gjaldkera félagsins.
2. Markmið Vísindasjóðs
2.1. Markmið Vísindasjóðs eru að styrkja rannsóknarverkefni, þróunarverkefni, viðamiklar ritsmíðar og þýðingar á viðurkenndum mælitækjum og spurningalistum innan sjúkraþjálfunar. Styrkt verkefni/rannsóknir skulu framkvæmdar af sjúkraþjálfurum, hafa faglegt gildi innan sjúkraþjálfunar og vera faginu til framdráttar.
2.2. Markmið Vísindasjóðs er einnig að stuðla að prófun mælitækja/spurningalista hérlendis að þýðingu lokinni. Ljóst er að þýðing mælitækja/spurningalista er mikilvægt fyrsta skref til að auka möguleika íslenskra sjúkraþjálfara á notkun viðurkenndra tækja við mat/endurmat skjólstæðinga. Prófun þeirra er hins vegar forsenda þess að ný eða þýdd mælitæki gagnist sem skyldi.
3. Stjórn Vísindasjóðs
3.1. Stjórn Vísindasjóðs er skipuð á aðalfundi samkvæmt lögum FS, 12. grein.
3.2. Stjórn Vísindasjóðs skal halda fundargerðarbók.
4. Tekjur og gjöld Vísindasjóðs
4.1. Tekjur Vísindasjóðs eru eftirfarandi:
4.1.1. Lögbundin framlög til Vísindasjóðs samkvæmt lögum FS, 17. grein.
4.1.2. Frjáls framlög velunnara sjóðsins.
4.1.3. Ágóði af degi sjúkraþjálfunar ár hvert skal renna í Vísindasjóð FS
4.2. Gjöld Vísindasjóðs (póstburðargjöld, bréfsefni, umslög og símakostnaður) greiðast af rekstrarfé skrifstofu FS.
5. Umsóknir um styrki
5.1. Umsóknum um styrki skal skila rafrænt til stjórnar Vísindasjóðs á þar til gerðum eyðublöðum sem eru á heimasíðu félagsins eigi síðar en 15. janúar eða fyrsta virka dag þar á eftir. Rétt til að sækja um styrki eiga skuldlausir félagsmenn fagdeildar FS og skulu þeir hafa verið félagar fagdeildar í a.m.k. 1 ár.
5.2. Umsóknum um styrk í Vísindasjóð FS þarf að fylgja:
- Fræðilegur bakgrunnur sem rökstyður mikilvægi verkefnisins og gildi þess fyrir sjúkraþjálfara á Íslandi. • Ítarleg vinnuáætlun.
- Rökstudd kostnaðaráætlun.
- Nauðsynleg leyfi fyrir rannsókninni (ef við á).
- Ef um þýðingarverkefni er að ræða þarf auk þess að fylgja:
- Ítarlegar upplýsingar um mælitækið sem á að þýða og gildi þess fyrir sjúkraþjálfara á Íslandi.
- Nákvæm vinnuáætlun. Við þýðingar/bakþýðingar spurningalista er m.a. mælt með eftirfarandi verklagi:
1. WHO:
https://www.who.int/substance_abuse/research_tools/translation/en/.
2. Dorcas E. Beaton og félagar: Guidelines for the Process of Cross-Cultural Adaptation of Self-Report Measures, Spine 2000; 25(24):3186-3191).
6. Styrkveitingar
6.1. Vísindasjóður FS styrkir eftirfarandi, einn eða fleiri þætti allt eftir eðli og umfangi verkefnisins:
- Útlagðan kostnað vegna verkefnisins s.s. póstburðargjöld, aðkeypta tölfræðiúrvinnslu og tölvuvinnu (uppsetningu, myndir o.þ.h.)
- Vinnuframlag umsækjanda og/eða annarra sem koma að verkefninu. Kostnað vegna aðkeyptrar þýðingavinnu. Reynt verður að taka tillit til áætlaðs vinnuframlags en það skal lagt fram sem vinna í klst.
- Kaup á nauðsynlegum rannsóknartækjum til verkefnisins. Ekki fæst styrkur til kaupa almenns skrifstofubúnaðar og tækja eins og tölva o.þ.h.
6.2. Umsóknir verða metnar af stjórn Vísindasjóðs. Úthlutunarfé hvers árs verður síðan skipt samkvæmt mati stjórnar. Stjórnin getur ákveðið að úthluta öllu fénu til eins umsækjanda eða skipta fénu milli fleiri umsækjenda.
6.3. Ekki er veittur styrkur til sama verkefnis oftar en einu sinni, nema um sé að ræða grundvallarbreytingar á umfangi þess (stækkun úr meistaraverkefni í doktorsverkefni).
6.4. Ekki er veittur styrkur afturvirkt til verkefnis sem er lokið.
6.5. Stjórn Vísindasjóðs áskilur sér rétt til að hafna umsóknum einni eða fleirum eða fara fram á endurskoðun verkefnis- og/eða kostnaðaráætlunar. Gildar umsóknir sem ekki reynist unnt að styrkja verða endursendar. Þær njóta ekki forgangs við næstu úthlutun heldur verða metnar á jafnréttisgrundvelli við nýjar umsóknir.
7. Úthlutun
7.1. Til úthlutunar á hverju ári geta verið allt að 90% af öllum framlögum til sjóðsins auk ónýttra styrkja.
7.2. Styrk úr sjóðnum er úthlutað til ákveðinna umsækjanda vegna rannsókna/verkefna. Hætti umsækjandi(ur) af einhverjum ástæðum við verkefnið, gengur styrkurinn til Vísindasjóðs á ný en fylgir ekki verkefninu.
7.3. Stjórn Vísindasjóðs gerir grein fyrir vali styrkþega á Degi sjúkraþjálfunar ár hvert.
7.3.1. Helmingur styrkupphæðar greiðist styrkþega við það tækifæri, en meginregla við úthlutun styrkfjárins er að upphæðin sé greidd í tvennu lagi. Þó má greiða styrkinn í einu lagi ef aðstæður krefjast að mati stjórnar.
7.3.2. Seinni hluti styrkupphæðar er afgreiddur að fenginni framvinduskýrslu sem skila skal til stjórnar Vísindasjóðs fyrir 1. desember styrkárið. Styrkþegi skal kynna niðurstöður á ráðstefnu, opinni málstofu eða öðrum sambærilegum vettvangi og/eða birta niðurstöður í ritrýndu tímariti s.s Sjúkraþjálfaranum, fagtímariti Félags sjúkraþjálfara. Sé ekki sýnt fram á eðlilega framvindu verkefnis á Vísindasjóður endurkröfurétt á úthlutað fé.
7.4. Framkvæmdastjóri SIGL annast greiðslu styrkja úr úthlutunarsjóðnum að fenginni staðfestingu stjórnar Vísindasjóðs. 7.5. Framkvæmdastjóri SIGL sendir styrkþega launaseðil vegna styrks og ber styrkþega að telja styrkinn fram til skatts en getur talið fram raunverulegan kostnað sem frádráttarlið á móti.
8. Ágreiningur um úrskurð, vanhæfni stjórnar Vísindasjóðs
8.1. Úrskurði stjórnar Vísindasjóðs er ekki hægt að áfrýja, en hægt er að óska eftir rökstuðningi fyrir höfnun.
8.2. Sé stjórnarmaður, einn eða fleiri, vanhæfur vegna hagsmunatengsla, kallar sjóðsstjórn til varamann eða -menn í stað þess eða þeirra sem vanhæfir eru og þannig skipuð metur stjórnin umsóknir. Ef allir þrír stjórnarmenn eru vanhæfir skipar stjórn FS þriðja varamanninn tímabundið til að taka sæti ásamt kosnum varamönnum.
8.3. Ef stjórnarmaður sækir um styrk þá tekur varamaður sæti hans það tímabil.
9. Gildistaka
9.1. Starfsreglur þessar taka gildi 9. mars 2021
9.2. Reglur sjóðsins skulu endurskoðaðar þriðja hvert ár.
9.3. Breytingar á starfsreglum eru háðar samþykki aðalfundar FS. Reykjavík,
9. mars 2021
Stjórn Félags sjúkraþjálfara

