Samþykktar á fundi stjórnar FS þann 13. nóvember 2013 Samþykktar á aðalfundi FS þann 27. mars 2014

Starfsreglur siðanefndar Félags sjúkraþjálfara

NEFNDIN:

1.gr.  Siðanefnd Félags sjúkraþjálfara starfar samkvæmt lögum Félags sjúkraþjálfara og lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.


Hlutverk siðanefndar er:

  1. að fjalla um ágreining milli sjúkraþjálfara og umbjóðanda hans að því leyti sem slíkt kann að stríða gegn siðareglum félagsins.
  2. að fjalla um kvörtun á hendur sjúkraþjálfara frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn siðareglum félagsins


2.gr.  Um skipan nefndarinnar fer eftir 2. mgr. 12. gr. laga félagsins. Siðanefnd kýs sér formann og skiptir með sér verkum.


3.gr. Siðanefnd skal halda gerðabók. Þar skal skrá framvindu mála samkvæmt 10.-14.gr. Gerðabók skal varðveitt af formanni siðanefndar.


4.gr. Siðanefnd gætir þagnarskyldu varðandi persónulegar upplýsingar í erindum sem henni berast.


5.gr. Um hæfi nefndarmanna til þátttöku í meðferð einstaks máls fer eftir reglum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nefndarmaður getur einnig af gildum ástæðum vikið úr nefndinni að eigin ósk við umfjöllun á einstökum málum. Í þessum tilfellum tekur varamaður sæti í nefndinni.


MÁLSMEÐFERÐ:


6.gr.  Öllum er heimilt að vísa málum til siðanefndar


7.gr.  Málsaðilum er heimilt að fela umboðsmanni sínum að gæta hagsmuna sinna fyrir nefndinni. Heimilt er að krefjast skriflegs umboðs til erindreksturs fyrir nefndinni.


8.gr. Erindi til siðanefndar skal vera skriflegt og í því skal greint frá nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem sendir erindið. Einnig skal koma fram hvaða sjúkraþjálfari eigi í hlut, málsatvik þau, sem eru tilefni erindisins, hvaða greinar siðareglna teljast hafa verið brotnar og hvaða kröfur séu gerðar. Erindi skulu fylgja sönnunargögn þau, sem á er byggt. Erindi skal vera undirritað af aðila eða umboðsmanni hans. Öll gögn skulu berast nefndinni í 3 eintökum.


9.gr.  Siðanefnd getur vísað erindi frá ef meira en tvö ár eru liðin frá því að atburður átti sér stað, atburðurinn er lítils háttar að mati siðanefndar og/eða sannanir eða vitnisburður ónógur.


10.gr.  Ef kæru er ekki vísað frá skv. 9. gr. fer erindið í eftirfarandi ferli:


A. Gagnaðila skal strax tilkynnt með ábyrgðarbréfi að erindi hafi borist siðanefnd. Skal þar getið um öll atriði erindis. Siðanefnd skal upplýsa málshefjanda og gagnaðila um siðareglurnar.


B. Frestur gagnaðila til að svara siðanefnd er fjórar vikur frá dagsetningu póstkvittunar ábyrgðarbréfs. Formaður siðanefndar getur framlengt frest ef sérstakar ástæður liggja að baki.


C. Málsaðilum skal gefinn kostur á að leggja fram skriflega nánari upplýsingar er varða viðkomandi erindi, þó ekki meira en tvö bréf frá hvorum aðila. Málsaðilum skulu kynnt öll atriði er fram koma í þessum bréfum. Frestur málsaðila til að svara þeim bréfum er 15 dagar frá dagsetningu póstkvittunar ábyrgðarbréfs frá siðanefnd. Nefndin getur krafið aðila um frekari gögn eða aflað þeirra.


D. Nefndin tekur afstöðu til sönnunar gildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls. Ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá. Ef í máli er ágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísar hún málinu frá.


Málsaðilum skulu að jafnaði kynnt gögn máls eftir því sem þau berast, nema slíkt sé bersýnilega óþarft eða réttmætar ástæður mæla gegn því að mati nefndarinnar, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga. 2 3 Sinni málsaðilar ekki tilmælum um skriflegar greinargerðir eða athugasemdir innan tilskilins frests skulu þau ítrekuð með nýjum fresti, sem skal að jafnaði ekki vera lengri en ein vika. Sinni málshefjandi ekki tilmælum nefndarinnar um framlagningu gagna er henni heimilt að vísa máli frá. Ef sjúkraþjálfari sinnir ekki tilmælum nefndarinnar um skriflega umsögn eða framlagningu annarra gagna getur nefndin byggt úrlausn máls á framlögðum gögnum og öðrum upplýsingum, sem hún sjálf aflar um málið. Nefndinni er heimilt, hvenær sem er við meðferð máls, að leita sátta með aðilum. Málsmeðferð skal vera skrifleg.


11.gr. Siðanefnd er heimilt að leita sér utanaðkomandi aðstoðar, t.d. lögfræðilegar ef þörf krefur. Félag sjúkraþjálfara skal standa straum af slíkum kostnaði að fengnu samþykki stjórnar.


12.gr. Niðurstaða siðanefndar fari eftir vilja meirihluta nefndarinnar og skal vera rökstudd. Minnihluta nefndarinnar er heimilt að birta sérálit. Niðurstaða siðanefndar getur verið á eftirfarandi vegu:

A. Frávísun.(sbr.9.gr.)

B. Að ekki hafi verið brotið gegn siðareglum sjúkraþjálfara.

C. Að brotið hafi verið gegn siðareglum sjúkraþjálfara. Verði niðurstaða meirihluta nefndarinnar sú að brotið hafi verið gegn siðareglum skal málinu vísað til stjórnar félagsins sem ákveður viðurlög.


13.gr. Um frágang mála

A. Greinargerð siðanefndar sendist skriflega í ábyrgðarbréfi til beggja aðila og stjórnar félagsins.

B. Í greinargerðinni skal koma fram: Niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur Frestur til endurupptöku málsins.

C. Hvor málsaðili um sig eða stjórn geta krafist þess að málið verði tekið upp að nýju, komi fram ný gögn er varða málið eða galli reynist á málsmeðferð.

D. Kröfu um nýja málsmeðferð skal leggja fram innan fjögurra vikna frá dagsetningu póstkvittunar ábyrgðarbréfs eða fjórum vikum eftir að nýjar upplýsingar koma fram.

E. Einungis er hægt að gera kröfu um nýja málsmeðferð einu sinni.


NIÐURSTÖÐUR:


14.gr. Úrskurðir nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun telst lokið og eigi síðar en sex mánuðum eftir að erindi berst til hennar. Stjórn er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður liggja fyrir. Þess skal getið hvort allir nefndarmenn eru sammála um niðurstöðu. Ef nefndin er ósammála um niðurstöðuna skal getið um það hvaða atriði nefndarmenn eru ósammála um og jafnframt skal þess getið hverjir nefndarmanna eru ósammála meirihlutanum.


15.gr. Siðanefnd hefur heimild til að birta niðurstöður sínar á vef félagsins, í Sjúkraþjálfaranum eða Fréttabréfi, en nafnleyndar skal þar gætt.


Samþykkt á fundi stjórnar FS þann 13.11.2013

Til fyrirlagningar á væntanlegum aðalfundi FS þann 27. mars, 2014.

Unnur Pétursdóttir, formaður FS.