Saga félagins 


Félag sjúkraþjálfara hefur verið leiðandi afl í mótun og þróun sjúkraþjálfunar sem fags hér á landi. Frá stofnun félagsins árið 1940 hefur það unnið að því að efla faglegt starf, bæta starfsumhverfi og tryggja réttindi sjúkraþjálfara, samfara stöðugum framförum innan heilbrigðisþjónustu.

Sjúkraþjálfun sem faggrein 

Sjúkraþjálfun sem fag hefur rætur sem ná aftur til forna, þar sem líkamsæfingar og meðferð voru notuð til að efla heilsu og græða meiðsli. Elstu heimildir um slíka meðferð eru allt frá 2600 f.Kr. Formleg þróun greinarinnar átti sér þó stað á 18. og 19. öld, þegar Per Henrik Ling stofnaði Gymnastik Institut í Stokkhólmi og lagði grunn að nútímalegri hreyfimeðferð og endurhæfingu. Ísland tók síðar við þessari þróun og innleiddi sjúkraþjálfun sem viðurkennda heilbrigðisgrein á 20. öld, með aukinni áherslu á vísindalegan grunn, menntun og faglega sjálfstjórn. 


Upphaf og fyrstu ár félagsins (1940–1960) 

Félag nuddkvenna var stofnað árið 1940 og markaði það upphaf skipulegrar fagfélagsstarfsemi sjúkraþjálfara hér á landi. Ingunn Thorstensen var fyrsti formaður félagsins og gegndi embætti til ársins 1955. Á þessum tíma var starfsgrein sjúkraþjálfara enn að mótast og starfið að festa sig í sessi innan heilbrigðiskerfisins. Áherslan var á að byggja upp faglegt samfélag, stuðla að menntun og bæta aðstöðu og réttindi sjúkraþjálfara. 


Þróun og fagleg festa (1960–1980) 

Árið 1962 var nafni félagsins breytt í Félag íslenskra sjúkraþjálfara og tveimur árum seinna gerðist félagið aðili að Heimssambandi sjúkraþjálfara (World Physiotherapy) og þar með hluti af alþjóðlegu faglegu samstarfi. Formenn á þessum tíma voru m.a. Vivan Svavarsson (1955–1968) og Sigríður Gísladóttir (1968–1979), sem leiddu félagið í gegnum tímabil þar sem sjúkraþjálfun tók miklum framförum, bæði hvað varðar menntun, faglega þróun og viðurkenningu sem heilbrigðisstétt. 


Uppbygging og fjölbreytt starfsemi (1980–2000) 

Á níunda og tíunda áratugnum jókst fagleg umræða í samfélaginu um sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfarar tóku sífellt virkari þátt í stefnumótun innan heilbrigðismála. Félagið tók þátt í þróun menntunar og starfsréttinda og lagði áherslu á að efla sjálfstæði fagsins. Á þessum árum jókst einnig áhugi á sérhæfingu innan sjúkraþjálfunar, og fagdeildir og vinnuhópar tóku til starfa. 


Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var stofnað árið 1990 og var ætlað að gæta hagsmuna félagagsmanna sem störfuðu sjálfstætt samkvæmt samningum við Tryggingastofnun ríkisins (TR). 

Stéttarfélag sjúkraþjálfara var stofnað 1995 og tók þá við samningsumboð fyrir flesta sjúkraþjálfara sem voru launþegar, hvort sem þeir störfuðu á opinberum stofnunum eða sjálfeignarstofnunum. Félagið gerðist aðili að bandalagi háskólamanna (BHM). 


Breytingar og sameining (2000–2013) 

Á fyrstu árum 21. aldar hófust umræður um að styrkja innra skipulag og samstöðu innan fagsins. Á haustmánuðum 2012 var samþykkt að sameina þrjú aðskilin félög sjúkraþjálfara undir einu heildarfélagi með deildaskiptingu eftir starfssviðum. Stofnfundur hins sameinaða Félags sjúkraþjálfara var haldinn 10. desember 2012 og nýja félagið tók til starfa 1. janúar 2013. Markmiðið með sameiningunni var að efla áhrif fagsins, tryggja öflugri faglega umræðu og bæta þjónustu við félagsmenn. 


Nútíminn og áframhaldandi þróun (2013–í dag) 

Frá árinu 2013 hefur félagið starfað á endurnýjuðum grunni og lagt áherslu á faglega þróun, staðið vörð um réttindi sjúkraþjálfara og talað fyrir aukinni samvinnu heilbrigðisstarfsfólks innan heilbrigðiskerfisins. Unnur Pétursdóttir gegndi formennsku 2013–2022, en Gunnlaugur Már Briem tók við sem formaður árið 2022. Félagið er aðili að Bandalagi háskólamanna (BHM) og vinnur markvisst að því að styrkja stöðu sjúkraþjálfara sem menntaðra sérfræðinga í heilsueflingu, endurhæfingu og forvörnum. Félagið heldur reglulega viðburði og fræðslunámskeið fyrir sjúkraþjálfara og árlega er haldin fagráðstefna sjúkraþjálfunar á Íslandi sem kallasst Dagur sjúkraþjálfunar. Auk þess fagnar félagið Alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar 8. september ár hvert ásamt öðfum aðildarfélögum World Physiotherapy.   


  • Formenn félagsins frá upphafi

    Ingunn Thorstensen               1940-1955 


    Vivan Svavarsson                   1955-1968 


    Sigríður Gísladóttir                1968-1979 


    Kristín Guðmundsdóttir         1979-1985 


    Hilmir Ágústsson                   1985-1988 


    Guðrún Sigurjónsdóttir          1988-1991 


    Hulda Ólafsdóttir                   1991-1995 


    Sigrún Knútsdóttir                 1995-2001 


    Íris Marelsdóttir                     2001-2002 


    Auður Ólafsdóttir                  2002-2008 


    Héðinn Jónsson                     2008-2013 


    Unnur Pétursdóttir                 2013- 2022 


    Gunnlaugur Már Briem          2022 - 

1940 - 2014

Tímalína 


1940

Félag nuddkvenna

1956

Sjúkraþjálfari verður löggilt starfsheiti.

1962

 Fyrstu lögin um sjúkraþjálfun sett

1962

 Nafni félagsins breytt í Félag íslenskra sjúkraþjálfara

1963

Félagið gerist aðili að Heimssabandi sjúkraþjálfara (World Physiology) 

1973

Fyrsti samningur sjúkraþjálfara við sjúkrasamlagið (nú Sjúkratryggingar Íslands). 

1976

Námsbraut í sjúkraþjálfun stofnuð við HÍ. 

1980

Fyrstu sjúkraþjálfararnir útskrifaðir frá HÍ. 

1990

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara stofnað

1995

Stéttarfélag sjúkraþjálfara stofnað

2001

Sérfræðiviðurkenningar í sjúkraþjálfun veittar af Landlækni í fyrsta sinn. 

2013

Ný lög um sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfara. Faglegt sjálfstæði sjúkraþjálfara fest í lög. 

2014

Auglýst í fyrsta sinn eftir sérfræðingum í sjúkraþjálfun (Landspítalinn).