Nám í sjúkraþjálfun
Nám í sjúkraþjálfun er fyrir þau sem hafa áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi þar sem meðal annars er unnið að forvörnum, þjálfun, heilsueflingu, hæfingu og hendurhæfingu fólks hvort sem það er heilbrigt, veikt eða fatlað.
Nám í sjúkraþjálfun er bæði fræðilegt og verklegt og leggur áherslu á fagmennsku, fræði og vísindaleg vinnubrögð. Til þess að öðlast rétt til starfsréttinda sem sjúkraþjálfari þarf að ljúka þriggja ára BS námi og tveggja ára MS námi.
Hluti námsins fer fram á endurhæfingarstöðvum, sjúkraþjálfunarstofum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, þar sem nemendur sinna skjólstæðingum undir handleiðslu reyndra sjúkraþjálfara.
Takmarkaður fjöldi nemenda er tekinn inn í námið á hverju ári og fara inntökupróf fram í byrjun sumars ár hvert.
Sjúkraþjálfunarnám í útlöndum
Við ráðleggjum þeim sem velja að læra sjúkraþjálfun (e.physical therapy / physiotherapy) erlendis og stefna að því að starfa hér á landi, að velja skóla sem býður upp á nám sem er sambærilegt því sem kennt er við Háskóla Íslands bæði hvað varðar lengd námsins, einingafjölda og innihald.
Í sumum löndum er boðið upp á tveggja ára MS nám, að undangengnu 3 ára BS námi, svipað og í Námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ. Í Bandaríkjunum útskrifast sjúkraþjálfarar úr DPT námi (e. doctor of physical therapy) sem tekur 3 ár og er til viðbótar við BS nám sem nýtist sem grunnur fyrir nám í sjúkraþjálfun (t.d. líffærafræði, lífeðlisfræði eða endurhæfingavísindi). Víða í Evrópu er sjúkraþjálfun á BS-stigi og þá er mikilvægt að velja skóla þar sem BS námið er 4 ár (240 ECTS, stundum kallað BS honor).
Í öllum tilfellum (4 ára BS, MS eða DPT) er mikilvægt að bera saman innihald námsins erlendis við námið á Íslandi hverju sinni (sjá upplýsingar í kennsluskrá HÍ).

