Leiðbeiningar til ritrýna



Aðaltilgangur ritrýnis er að gefa fræðilegri ritstjórn ráð um hvernig með greinar skuli farið, að meta hvort vinnan er frumleg og þörf, vel unnin og í samræmi við nýjustu þekkingu. Hann athugar einnig hvort efniviðnum er nægilega vel lýst þannig að lesendur geti fylgt röksemdafærslu og mögulegt sé að

endurtaka viðkomandi rannsókn.

 

Umsögn ritrýnis til ritstjórnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi í formi yfirlitstöflu og stuttrar greinargerðar um handritið þar sem fram kemur hvort handritið er birtingarhæft og þar sem farið er yfir styrkleika og takmarkanir rannsóknarinnar/handritsins. Þessi hluti er eingöngu ætlaður fræðilegri ritstjórn.

Í öðru lagi skrifar ritrýnir aðferðafræðilega greinargerð og tillögur að endurbótum í samræmi við leiðbeiningar Sjúkraþjálfarans fyrir ritrýna. Þann hluta dómsins mun ritstjórn að jafnaði senda höfundi, ásamt eigin athugasemdum, ef þær eru einhverjar.

 

Ritrýnar eru vinsamlegast beðnir að færa athugasemdir sínar ekki beint inn í skjalið sem geymir fræðigreinina. Hver ritrýnir er beðinn um að fara með handritið sem trúnaðarmál. Ritrýnar njóta fullrar nafnleyndar gagnvart höfundum og á sama hátt eru greinar sendar blindaðar til ritrýna. Allir aðilar eru beðnir að virða þessar vinnureglur.

 

Leiðbeiningarnar sem hér fara á eftir eru eingöngu ætlaðar til viðmiðunar fyrir ritrýna. Önnur atriði en

þau sem að neðan eru talin kunna að koma til álita. Ekki er nauðsynlegt að leiðbeiningunum sé fylgt lið fyrir lið í öllum tilvikum, þó æskilegt sé að horfa til þeirra atriða sem þar koma fram.

 

Ritrýnar eru beðnir um að fara eftir gátlistum þegar það á við. Ritrýnar sem skoða slembiraðaðar klínískar rannsóknagreinar skulu fara eftir CONSORT flæðiritinu, ritrýnar sem fara yfir yfirlitsgreinar eru eiga að styðjast við PRIMSA gátlistann og ritrýnar sem fara yfir rannsóknir um nákvæmni greiningarprófa styðjast við STARD gátlistann. Fyrir eigindlegar rannsóknir er gott að nota QUALRES. Sjá nánar skjalið gátlistar og flæðirit fyrir mismunandi rannsóknarsnið.

 

Fimm mikilvægir þættir sem einkenna hágæðarannsóknir eru:

  • Þýðing (relevance) rannsóknarinnar fyrir sjúkraþjálfunarfagið hér á landi (á að koma fram í texta greinarinnar).
  • Frumleiki (originality). Handritið inniheldur nýjar frumlegar upplýsingar sem skipta máli fyrir sjúkraþjálfun.
  • Mikilvægi (importance) rannsóknarinnar almennt. Um er að ræða eigin athugun sem eykur þekkingu á viðkomandi fræðasviði.
  • Hágæða rannsóknarsnið og aðferðir (high-quality design and methods). Góð lýsing á rannsóknarsniði og aðferðum.
  • Hágæða greining og túlkun (high-quality analysis and interpretation)


Góð greining og túlkun á niðurstöðum tryggir góðan umræðukafla þar sem samræmi er á milli niðurstaða og túlkunar.

 

Almennar leiðbeiningar um ritrýningu

Ritrýnir er beðinn um að:


  • lesa allt handritið áður en hann leggur mat á greinina til að fá tilfinningu fyrir öllu handritinu,
  • mynda sér skoðun á þýðingu (relevance), frumleika (originality) og mikilvægi (importance) rannsóknarinnar,
  • byggja matið á handritinu út frá þeim fimm mikilvægu þáttum sem einkenna hágæða rannsóknargrein,
  • ritrýna handritið lið fyrir lið með hliðsjón af umsagnarblaði ritrýna og vinna greinargerð um matið,
  • vera nákvæmur (specific) í greinargerðinni sem hann vinnur,
  • breyta ekki orðalagi og forðast að prófarkalesa. Þó það sé freistandi að breyta setningum er það ekki nauðsynlegt í upphafi ritrýnis sérstaklega þegar óljóst er hvort breyta þurfi handriti mikið eða því verði jafnvel hafnað. Ritrýnar eiga fremur að einbeita sér að þeim fimm mikilvægu þáttum sem einkenna eiga hágæðarannsóknir.

 

Auk þess eiga ritrýnar að:

  • meta hvort rannsóknarviðfangsefnið er nýtt eða hvort efnið hefur verið birt áður, hvort sem um sömu eða aðra höfunda er að ræða. Ef rannsóknin er til staðfestingar fyrri rannsóknum, á að meta mikilvægi hennar til birtingar,
  • meta lengd handrits í tengslum við mikilvægi þeirrar spurningar sem könnuð er. Ef handritið er talið of langt, þarf að tilgreina hvað mætti stytta eða fella niður,
  • leggja dóm á framsetningu efnis, hvort hún er nægilega skýr og einföld. Meta almenna málnotkun og gefa dæmi um lagfæringu ef henni er verulega ábótavant.

 

Sendið ritrýni rafrænt á formann fræðilegrar ritstjórnar (sjá upplýsingar á heimsíðu FS).

 

 Umsagnarblað ritrýna