Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur. Nú er uppselt á ráðstefnuna og biðlisti er fullur.
Ráðstefnan verður haldin á Fosshótel Reykjavík að Þórunnartúni 1, í salnum Gullfoss.
___________________________________
Fræðslunefnd Félags sjúkraþjálfara og Fríða Brá Pálsdóttir sjúkraþjálfari standa fyrir ráðstefnu fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur með fólki með sögu um um áföll og hefur áhuga á því að bæta þekkingu sína og þjónustu við þann hóp
___________________________________
Dagskrá
13.00 - 13.40: Pernille Thomsen – Áföll og áhrif þeirra á miðtaugakerfið: Áföll valda taugalífeðlisfræðilegum breytingum í öllu taugakerfinu. Fyrirlesturinn mun leggja áherslu á hvað áföll eru frá taugalífeðlisfræðilegu sjónarhorni. Horft verður á afleiðingar áfalla á heila og líkama, meðal annars líkamlegar afleiðingar of mikils álags á taugakerfið, sem auka áhættu á lífsstílstengdum sjúkdómum. Gefin verða ráð um hvernig við getum róað og byggt aftur upp taugakerfið með hreyfingu og öndunaræfingum.
Pernille er danskur sjúkraþjálfari sem rekur sína eigin meðferðarstofu í Bagsværd í Danmörku. Hún hefur sérhæft sig í að meðhöndla börn, sérstaklega börn sem eru undir miklu álagi og streitu en meðhöndlar einnig fullorðna með vandamál tengd álagi og streitu
13.45 - 14.15: Margrét Gunnarsdóttir - Birtingamynd flókinna áfalla - líkamsmiðuð áfallameðferð
Margrét er menntaður sjúkraþjálfari með sérfræðiréttindi í geðsjúkraþjálfun og sálmeðferðarfræðingur MSc (e.psychotherapist). Hún hefur sérhæft sig í áfallameðferð og líkamsmiðaðri sálrænni meðferð. Hún hefur m.a. starfað við endurhæfingu eftir krabbamein, starfsendurhæfingu og tengslaeflandi meðferð, bæði með einstaklingum og hópum. Síðastliðinn sjö ár hefur Margrét verið sjálfstætt starfandi með eigin stofu, frá 2022 í Grænuhlíð - fjölskyldumiðstöð.
14.15 - 14.45: Dr. Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur - Áföll og áfallastreita - hvað er mikilvægt að hafa í huga
Berglind hefur víðtæka reynslu sem klínískur sálfræðingur og hefur verið virk í rannsóknum og í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi samhliða klínískum störfum. Rannsóknir Berglindar hafa einkum beinst að heilsufarslegum afleiðingum og bata í kjölfar alvarlegra áfalla. Þá hafa rannsóknir hennar einnig beinst að þáttum sem hindra þjónustunýtingu einstaklinga sem þjást af áfallastreituröskun og hindrunum sem heilbrigðisstarfsmenn upplifa við að veita áfallamiðaða þjónustu og gagnreynda meðferð við áfallastreitu.
14.45 - 15.00: Kaffi
15.00 - 15.30: Katrín Ösp Jónsdóttir - Samkennd, samkenndarþreyta og starfstengd áföll. Katrín Ösp er hjúkrunarfræðingur sem er að ljúka meistaranámi í geðheilbrigðisvísindum þar sem hún hefur sérhæft sig í samkennd, samkenndarþreytu og öðrum starfstengdum áföllum. Hún starfar við ráðgjöf og stuðning hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri auk þess sem hún er verkefnastjóri þar.
Katrín mun fjalla um hvað samkenndarþreytu (e. compassion fatigue) og önnur starfstengd áföll og hvernig þau geta haft á áhrif á heilbrigðisstarfsfólk. Hún mun einnig fjalla um hvað sé hægt að gera til að sporna gegn afleiðingum og hvað megi gera til að hlúa vel að eigin heilsu í stafi.
15.30 - 16.00: Dr. Margrét Ólafía Tómasdóttir – Langtímaafleiðingar áfalla og streitu á heilsufar. Fyrirlesturinn fjallar um með hvaða hætti langvarandi álag og erfiðleikar spila inn í snemmbæra þróun sjúkdóma og fjölveikinda
Margrét er heimilislæknir, lektor við HÍ og yfirlæknir á Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar. Hún lauk doktorsprófi í læknisfræði og lýðheilsu frá Háskólanum í Þrándheimi 2018 þar sem hún skoðaði áhrif áfalla og langvarandi streitu á þróun langvinnra sjúkdóma
16.00 - 16.30 Dr. Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri -
Áföll og áhrif á heilsufar og líðan og áfallamiðuð nálgun.
Sigrún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Í meistararannsókn við HA og doktorsrannsókn fjallaði hún um kynferðislegt ofbeldi í æsku meðal karla of kvenna og áhrif á heilsufar og líðan ásamt því að þróa og hafa umsjón með Gæfusporunum, heildrænu og þverfaglegum úrræði fyrir þolendur ofbeldis.
Sigrún hefur frá árinu 2010 haft umsjón með námsleið í meistaranámi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri um áföll og ofbeldi. Rannsóknir hennar og nemenda fjalla um áföll, ofbeldi, afleiðingar, úrræði og áfallamiðaða nálgun og hefur hún birt fjölda greina í ritrýndum tímaritum.
Áföll, áhrif á heilsufar og líðan og áfallamiðuð nálgun
_____________________________
ATH þau sem eru ekki félagar í Félagi sjúkraþjálfara haka við "Ekki félagi í FS" og greiða sama gjald og félagar.