Nám og sérfræðileyfi

Námið

Hefur þú áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi þar sem m.a. er unnið að forvörnum, þjálfun, hæfingu og endurhæfingu fólks, hvort sem það er heilbrigt, veikt eða fatlað? Þá er nám í sjúkraþjálfun góður kostur fyrir þig!

Nám í sjúkraþjálfun hefst með 3ja ára námi til BS gráðu í sjúkraþjálfunarfræðum og heldur svo áfram sem 2ja ára meistaranám sem veitir rétt til starfsréttinda sem sjúkraþjálfari. 
Þeir sem hófu nám 2013 eða fyrr, luku 4ja ára BS námi til starfréttinda samkvæmt eldra skipulagi.

Sjá:  https://www.hi.is/node/300572

Námið er bæði bóklegt og verklegt en hluti námsins fram á endurhæfingarstöðvum, sjúkraþjálfunarstofum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, þar sem nemendur vinna með skjólstæðinga undir handleiðslu reyndra sjúkraþjálfara.

Við námsbrautina hefur verið sett á stofn Rannsóknarstofa í hreyfivísindum sem hefur það hlutverk að sinna rannsóknum á ólíkum sviðum tengdum hreyfingu og heilsu.

Fjöldi nemenda í námið er takmarkaður. Á hverju ári eru 35 nemendur teknir inn í námið. Inntökupróf fer fram í byrjun sumars ár hvert og er það sameiginlegt með læknisfræði.

Sjúkraþjálfunarnám á Íslandi og tenging við nám í útlöndum

Sjúkraþjálfunarnám á Íslandi er 5 ára nám og samtals 300 ECTS (180 ECTS eininga BS nám+120 ECTS eininga MS nám). Nánari upplýsingar um uppbyggingu námsins í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands (HÍ) er að finna á heimasíðu Heilbrigðisvísindasviðs (https://www.hi.is/heilbrigdisvisindasvid_laeknadeild/um_namsbraut_i_sjukrathjalfun_0) og upplýsingar um innihald einstakra námskeiða eru á sömu síðu, undir „nám“ og „kennsluskrá“.

Við ráðleggjum þeim sem velja að læra sjúkraþjálfun (e. physical therapy/ physiotherapy) erlendis, og stefna að því að starfa á Íslandi, að velja skóla sem býður upp á nám sem er sambærilegt því sem er kennt við HÍ. Bæði hvað varðar lengd námsins (ECTS einingar) og innihald. Í sumum löndum er boðið upp á tveggja ára MS nám, að undangengnu 3 ára BS námi, svipað og í Námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ. Í Bandaríkjunum útskrifast sjúkraþjálfarar úr DPT námi (e. doctor of physical therapy) sem tekur 3 ár og er til viðbótar við BS nám sem nýtist sem grunnur fyrir nám í sjúkraþjálfun (t.d. líffærafræði, lífeðlisfræði eða endurhæfingavísindi). Víða í Evrópu er sjúkraþjálfun á BS-stigi og þá er mikilvægt að velja skóla þar sem BS námið er 4 ár (240 ECTS, stundum kallað BS honor).

Í öllum tilfellum (4 ára BS, MS eða DPT) er mikilvægt að bera saman innihald námsins erlendis við námið á Íslandi hverju sinni (sjá upplýsingar í kennsluskrá HÍ).

Að sækja um starfsleyfi sem sjúkraþjálfari á Íslandi – eftir nám í útlöndum

Það eru starfsmenn Embættis landlæknis sem veita starfsleyfi í sjúkraþjálfun (og öðrum lögvernduðum heilbrigðisgreinum). Nánari upplýsingar um hvað þarf til að geta fengið starfsleyfi sem sjúkraþjálfari á Íslandi er því að finna á vefsíðu Embættis landlæknis (http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/starfsleyfi/heilbrigdisstett/item13365/Sjukrathjalfarar). Vert er að geta þess að Norðurlandasamningur nr. 36/1993 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir (þar á meðal sjúkraþjálfara) féll úr gildi í janúar 2020.

Mikilvægt er að vera viss um að skólinn erlendis muni útvega ykkur nauðsynleg skjöl sem þið þurfið til að sækja um leyfi á Íslandi: skírteinisviðauka (e. diploma supplement, sjá https://europa.eu/europass/en/diploma-supplement) þar sem fram á að koma nafn háskóla (e. the institution that issued the qualification), háskólagráða og lengd náms (e. the type and level of qualification awarded), lýsing á náminu í heild, heiti allra námskeiða, fjöldi ECTS eininga (einstaka námskeið og heild), einkunnir (the content of the course and results gained) og lýsing á menntakerfinu í viðkomandi landi (e. details of the national education system). Þið þurfið einnig að skila inn námsskeiðslýsingum (e. course syllabus /course descriptions) þar sem fram á að koma nákvæm lýsing á innihaldi hvers námskeið (content of each course) og hæfniviðmið (learning outcomes). Mikilvægt er að skila inn upplýsingum um klukkustundir og áherslur í klínísku námi (e. hrs and focus in clinical education/practice based education).

Ef nám umsækjanda um starfsleyfi á Íslandi uppfyllir ekki kröfur um ótímabundið starfleyfi (löggildingu á Íslandi) er líklegt að Embætti landlæknis bjóði viðkomandi upp á svokallaðar uppbótarráðstafanir. Uppbótarráðstafanir eru skilgreindar sem hæfnispróf eða aðlögunartími (tímabundið starfsleyfi þar sem viðkomandi vinnur undir handleiðslu löggilts sjúkraþjálfara til að byrja með). Dæmi um slíkar aðstæður er þegar námið erlendis nær ekki 80% af náminu á Íslandi (styttra en 240 ECTS).

Sérfræðileyfi

Til að kalla sig sérfræðing í sjúkraþjálfun og starfa sem slíkur á Íslandi þarf að hafa lokið meistaranámi eða doktorsprófi í frá háskóla sem sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna eða hafa sambærilega menntun. Námið þarf að hafa verið að stærstum hluta innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem sótt er um sérfræðileyfi í og handleiðsla fenginn á því sérsviði. Áður en sótt er um leyfið þarf að starfa sem sjúkraþjálfari í tvö ár í fullu stafi á viðkomandi sérsviði að loknu sérnámi.

Sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun - Kröfur um þekkingu, færni og hæfni sérfræðinga í sjúkraþjálfun:

Thekking-faerni-og-haefni-serfraedinga-i-sjukrathjalfun--mai-2011


Sérfræðileyfi má veita á eftirfarandi klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunnar:

 • Bæklunarsjúkraþjálfun
 • Barnasjúkraþjálfun
 • Geðsjúkraþjálfun
 • Gigtarsjúkraþjálfun
 • Heilsugæsla- og vinnuvernd
 • Hjartasjúkraþjálfun
 • Greining og meðferð á hrygg og útlimaliðum „Manuel Terapy“
 • Lungnasjúkraþjálfun
 • Meðgöngu- og fæðingarsjúkraþjálfun
 • Taugasjúkraþjálfun
 • Öldrunarsjúkraþjálfun
 • Íþróttasjúkraþjálfun
 • Gjörgæslusjúkraþjálfun

Sérfræðingar í sjúkraþjálfun

Sérfræðingar í sjúkraþjálfun 

Landlæknir hefur gefið út starfsleyfaskrá sína á vefnum. Hér er hægt að nálgast öll þau sem hafa fengið sérfræðileyfi. Leita þarf fyrst eftir heilbrigðisstétt en því næst er hægt að velja sérgrein til að skoða þau sem hafa fengið sérfræðileyfi í viðkomandi sérgrein.


https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/finna-heilbrigdisstarfsfolk/
Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020