8 algeng meiðsli hjá hlaupurum
1. Hlaupara-hné (patellofemoral pain syndrome – runners knee)
Mjög algeng álagstengd einkenni frá hné. Undirliggjandi orsakaþættir eru nokkuð margir en mikilvægt er að litið sé til þátta á borð við styrks í fráfærsluvöðvum mjaðma, stöðu og hreyfingu hnéskeljar, styrks hvors höfuðs lærvöðvans fyrir sig og hlutfalls þar á milli og stöðu fótar og hlaupastíls.
2. Álagsbrot (stress fracture)
Örlitlar sprungur í beinum sem koma til vegna mikils síendurtekins álags, oft á tíðum vegna breytinga á undirlagi, skóbúnaði eða breytinga á heildarálagi á skömmum tíma eru gjarnan kallaðar álagsbrot. Mikilvægt er að litið sé til undirliggjandi þátta á borð við beinþynningar, mögulegs skorts á steinefnum eða sjúkdóma sem valda skertri aðlögunarhæfni beina auk þess sem hlaupastíll, skóbúnaður og rétt stignun álags er mikið atriði.
3. Beinhimnubólga (shin splints)
Þessi er mjög algeng. Lýsir sér gjarnan sem verkur framanvert í sköflungnum sem kemur eftir X langavegalengd á hlaupum og getur setið lengi í manni á eftir. Tengsl eru á milli flatra fóta (flat feet) og aukinnar hættu á að þróa með sér beinhimnubólgu.
4. Hásinabólga (achilles tendinitis)
Hásinabólga lýsir sér í vægum verk sem gjarnan ágerist með tímanum ef ekkert er að gert og er bundinn við hásinina sjálfa eða við festu hásinarinnar niður á hælbeinið (calcaneus). Mikilvægt er að hlusta á slík einkenni frá hásin, draga úr æfingaálagi og leita sjúkraþjálfara eða heimilislæknis til þess að fá ráðleggingar og viðeigandi meðferð og koma þannig í veg fyrir að þróa upp viðvarandi einkenni sem erfiðara er að ná niður.
5. Vöðvatognun (pulled muscle)
Ef vöðvar verða fyrir álagi sem þeir ráða ekki við, hvort sem um er að ræða of mikla lengingu (overstretch) eða skyndilegan samdrátt gegn of mikilli mótstöðu geta nokkrir þræðir vöðvans rofnað. Slíkt nefnist tognun og eru þær gjarnan flokkaðar í 3 gráður eftir alvarleika og einkennum. Stig 1-3. Algengustu vöðvar sem togna hjá hlaupurum eru aftanílæri eða í nára.
6. Iljafellsbólga (plantar fascitis)
Viðvarandi bólga og erting í iljafellinu (plantar fasciunni) sem er bandvefsstrengurinn sem liggur frá hælbeininu og að tánum á þér að framan, undir fætinum. Einkenni eru gjarnan verkur undir ilinni sem minnkar með hvíld og kælingu en eykst með aukna álagi.
7. Ökklatognun (sprained ankle)
Ökklinn er um margt merkilegur liður sem þarf að búa yfir miklum stöðugleika og getað tekið við miklum þyngdum á sama tíma og hann þarf að leyfa hreyfanleika í fleira en einu plani. Ökklaliðurinn er vegna þessa samsettur úr fleiri en einum lið. Ef hlaupið er utan vega eða í misfellum er algengast að missa fótinn inn á við og togna á svokölluð anterior talofibular liðbandi. Fleiri staðir geta tognað auka afleiddra áverka sem geta komið fram við slík óhöpp. Fer það allt eftir kröftum og eðli meiðslanna.
8. IT band syndrome
Iliotibial band syndrome einkennist af verk utanvert í hnénu sem ágerist við síendurtekið álag (svosem að hlaupa eða hjóla). Algengt er að einstaklingar finni lítið sem ekkert fyrir einkennunum til að byrja með en smám saman kemur verkur sem veldur því að viðkomandi þarf að stoppa. Nýjustu gögn benda til þess að erting undir svokölluðu iliotibial bandi (strengurinn utanvert á lærinu á þér) nuddist við og valdi ertingu við festuna á dálksbeininu.
Höfundur þessarar greinar er sjúkraþjálfari og einkaþjálfari og mikill áhugamaður um hlaup og þá sérstaklega utanvegahlaup. Hann starfar á Sjúkraþjálfaranum í Hafnarfirði.