2017 Nóvember

Pistill formanns

Pistill formanns

Þessi mánuður hófst með auka-aðalfundi BHM þar sem stefna bandalagsins var yfirfarin og samþykkt (sjá https://www.bhm.is/frettir/ny-stefna-bhm-samthykkt-a-aukaadalfundi ) og félagsmenn heimsóttu kollegana á Grensás í afar skemmtilegri og fræðandi vísindaferð. Ég sótti málþing um framtíð heilbrigðisþjónustu á Þjóðarspegli í HÍ og mótmælti þar þeirri fullyrðingu að 95% Íslendinga vildu að ríkið veitti alla heilbrigðisþjónustu, á þeirri forsendu að fólk væri engan veginn nægilega upplýst til að geta tekið afstöðu til málefnisins. Formaður Læknafélagsins tók undir málflutning minn, sem og fleiri. Stjórnarfundur FS, formannaráðsfundur BHM og svo fjölmargir fundir innan BHM vegna yfirstandandi kjaraviðræðna við ríkið tóku sviðið síðari hluta mánaðar, eftir að kjaraviðræður fór aftur í gang.

Hápunktur mánaðarins var hins vegar ráðstefna BHM um 4. Iðnbyltinguna (sjá  https://www.bhm.is/frettir/husfyllir-a-radstefnu-bhm-um-fjordu-idnbyltinguna ). Það kom ánægjulega á óvart að fara á ráðstefnu af þessu tagi sem ekki var bara sama gamla tuggan, heldur frísklegar umræður sem komu blóðinu á hreyfingu. Og það sem var mál manna var að ein af stærstu áskorunum næstu áratuga væri öldrun þjóðarinnar og að þar yrði ein stétt í algeru lykilhlutverki, nefnilega sjúkraþjálfarar! Og samkvæmt útreikningum taka vélmenni/tækni ekki yfir nema 2,1% af okkar starfssviði.

Bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar voru á því að þarna væri eitt stórra mála framtíðar og nú er spurningin – hvernig búum við okkur undir þetta sem fagstétt? Hvernig örvum við áhuga okkar yngstu sjúkraþjálfara á þessum geira, sem verður mesti vaxtabroddur fagsins ef þessar spár ganga eftir? Hvernig verður rekstrarform framtíðar-öldrunargeirans o.s.frv.

Kollurinn á mér spann á fullu þennan dag og segir mér að hafi sí- og endurmenntun sjúkraþjálfara verið nauðsynleg hingað til, þá verður hún margfalt mikilvægari á næstu áratugum. Og þar er verk að vinna bæði fyrir félagið, háskólana og starfsstaði sjúkraþjálfara.

 

Svo er lagt af stað inn í aðventuna, verkefni hennar verða kjaraviðræður. Ég sem ætlaði aldrei aftur að standa í kjaraviðræðum í desember!


Njótið aðventunnar,
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS