2017 Október

Pistill formanns

Pistill formanns

Októbermánuður hefur liðið með ógnarhraða enda mörg járn í eldinum. Fyrst er að telja að skrifað var undir nýjan stofnanasamning milli FS og SFV.  Verkefnið hefur verið lengi í vinnslu enda snúið, þar sem tekin var sú ákvörðun síðasta vetur að gera einn sameiginlegan stofnanasamning fyrir allar stofnanir sem tilheyra SFV, þ.e. Hrafnistuheimilin, Sóltún, Sunnuhlíð, Grund Mörk, Ás, Eir, Hamra, Skjól, Fellsenda og Lund.

20171019_125328Haldnir voru 4 samningafundir sl vor og aðrir fjórir nú í haust sem enduðu með undirritun þann 19. október. Samningaferlið var snúið enda flókið að fanga hefðir og venjur margra stofnana saman í einn samning, en við göngum afar sátt frá borði og teljum að hér hafi náðst góður áfangi í því að tryggja launasetningu okkar félagsmanna, eðlilegan framgang og hvata til sí- og endurmenntunar. 

Stjórn FS fundaði þann 4. okt með sameinaðri kjaranefnd félagsins og var farið yfir það sem helst brennur á félaginu faglega og kjaralega þessa dagana. Einnig fundaði ég með samninganefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sérstaklega og er nú þegar farið að leggja línur varðandi næstu samningalotu við SÍ, þótt samningurinn renni ekki út fyrr en 31. janúar 2018.

Stjórn fór á síðasta fundi sínum yfir 6. mánaða uppgjör og bar saman við fjárhagsáætlun. Það er gleðilegt að geta sagt frá því að við erum ákkúrat á réttu róli mv. fjárhagsáætlun ársins.

Undirbúningur ýmissa viðburða er í fullum gangi. Ber þar hæst Dagur sjúkraþjálfunar, sem verður með eilítið breyttu sniði, en við erum í viðræðum við Iceland Travel um að taka að sér umsýslu dagsins. Þannig þarf framkvæmdanefndin okkar einungis að sjá um faglegu dagskrána, en ekki að stússast í öllum skipulagsmálunum.

Önnur verkefni mín í mánuðinum hafa verið að grípa frambjóðendur glóðvolga og ræða við þá um mikilvægi sjúkraþjálfunar. Það var ánægjulegt að einn frambjóðandi, Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra, óskaði að fyrra bragði eftir því að funda með okkur og forsvarsmönnum 3 annarra BHM félaga þar sem umræðuefnið var kjör háskólamenntaðra kvenna-heilbrigðisstétta. Með mér á þeim fundi fh. FS voru þau Veigur Sveinsson varaformaður og Arnbjörg Guðmundóttir form. kjaranefndar launþega.

Af vettvangi BHM er það helst að frétta að ég hef tekið þátt í undirbúningi ásamt öðrum formönnum að nýrri stefnu BHM og verður hún rædd og afgreidd á aukaðalfundi BHM sem haldinn verður þann 1. nóvember nk.

Næst á dagskrá er vísindaferð félagsins, þar sem sjúkraþjálfarar á Grensás taka á móti okkur þann 2. nóvember nk. Ég vonast til að sjá sem allra flesta þar.

 

Kveðja,
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS