2017 September

Pistill formanns

Pistill formanns

Helstu verkefni félagsins nú í haustbyrjun hafa verið fjölmörg. Strax að loknum sumarleyfum eða dagana 17. - 18. ágúst var félagið með upplýsingabás á Reykjavíkurmaraþoni, sem var vel sóttur. Þökkum við þeim sjúkraþjálfurum sem stóðu vaktina kærlega fyrir og vonum að þeir hafi haft bæði gagn og gaman af.

Félagið ákvað að taka þátt í Fundi fólksins á Akureyri  http://fundurfolksins.is/ , en hann bar upp á alþjóðlegan dag sjúkraþjálfunar, þann 8. September. Því var þessu slegið saman og Félag sjúkraþjálfara bauð upp á tvær málstofur á Fundi fólksins, aðra um heilsueflingu aldraðra og hina um aðkomu sjúkraþjálfara að heilsugæslu. Báðar tókust vel en ekki síður var ómetanlegt að ná þarna tali af bæði stjórnarmálamönnum og hagsmunaðaðilum ýmsum sem starfa að heilbrigðismálum.

20170921_194600Ég sótti ENPHE ráðstefnu háskólakennara og nema í sjúkraþjálfun um síðustu helgi. Þar var fróðlegt að taka púlsinn á straumum og stefnum í kennslu sjúkraþjálfunar og heyra af grósku bæði í efnistökum og kennsluaðferðum. Afar flott ráðstefna og rós í hnappagat námsbrautar í sjúkraþjálfun.

Mynd f.vi: Björg Guðjónsdóttir, lektor við sjþj í HÍ, Selma Margrét Reynisdóttir, nýkjörinn formaður nemendasambands ENPHE, Sólveig Ása Árnadóttir, dósent við sjþj í HÍ.

Kjaramálin hafa líka tekið sinn skerf og haldið var áfram viðræðum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um sameiginlegan stofnanasamning fyrir allar stofnanir sem þeim tilheyra. Þetta hefur verið flókið verkefni, fjórir fundir voru haldnir í maí og júni, en nú þegar hafa 3 verið haldnir í haust. Sér nú fyrir endann á þessu verkefni og vonumst við til að geta undirritað nýja samning nú í október.

Úrskurður Gerðadóms féll úr gildi þann 31. ágúst og hófust kjarasamningsviðræður við ríkið, sem fengu snubbóttan endi þegar upp úr ríkisstjórnarsambandi slitnaði. Búið var að halda tvo fundi, en nú eru viðræður í biðstöðu sökum umboðleysis samninganefndar ríksisins.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í verkefnum septembermánaðar en auk fyrrnefnds hafa verið gerðar viðbætur við heimasíðu vegna námskeiðsskráninga, samnorræn yfirlýsing 20170917_173105sjúkraþjálfara vegna sjúkraþjálfunar í skólum kynnt heilbrigðisráðherra og Landlækni, vetrarstarfið skipulagt, ný próf sett í mælitækjabankann og ég hitti 1. árs nema í sjúkraþjálfun eina stund.  Fjölmörg önnur verkefni eru í stöðugri vinnslu, s.s. þýðing á bakbæklingi frá breska félaginu, undirbúningur að ICPPMH 2018 ráðstefnunni í apríl nk. o.fl.

Þá er enn ótalin öll sú starfsemi, fundir og samtöl sem ég hef átt hér innanhúss í BHM, þar sem viðræður við ríkið hefur verið fyrirferðamesta málefnið nú í september. Samskipti við bæði ER-WCPT og WCPT hafa einnig verið nokkur aðallega varðandi praktísk málefni en ég var auk þess valin sem einn þeirra formanna sem tekið var skype-viðtal við og beðin um að segja álit mitt á ýmsum þáttum í starfsemi WCPT.

Ég stefni að því að setja inn pistla af þessu tagi mánaðarlega í þeim tilgangi að félagsmenn hafi upplýsingar um það hvað ég sem formaður og við sem félag erum að fást við hverju sinni.

Kveðja,
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS