2018 Janúar – Sýnileiki sjúkraþjálfara
Verum sýnileg
Hversu sýnileg erum við?
Á stefnumótunardegi Félags sjúkraþjálfara fyrir nokkrum árum kom fram sú skýra ósk um að félagið myndi vera öflugra í að gera sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfara sýnilegri í þjóðfélaginu. Félaginu hefur orðið talsvert ágengt en betur má ef duga skal. Málið er nefnilega að við þurfum öll að taka þátt í þessu verkefni.
Stundum þarf að horfa inn á við og spyrja – hversu sýnileg(ur) er ég sem sjúkraþjálfari? Hversu auðvelt er að nálgast mig og mína þekkingu?
Og ennfremur, þeir sem eru í forsvari fyrir sinn starfsstað, hvernig er andlitið út á við? Hversu auðvelt er að fyrir skjólstæðinga, aðstandendur, kollega og aðrar heilbrigðisstéttir að nálgast upplýsingar um það hvað er í boði, hverjir starfa þarna og hver er tengiliður? Við snögga yfirferð um heimasíður er ljóst að bragabótar er þörf æði víða.
Að sjálfsögðu er það hverjum stað í sjálfsvald sett hvernig þessum málum er háttað, en mín skoðun er sú að eftirfarandi þurfi að koma fram á heimasíðum starfsstaða okkar:
Stofur sjúkraþjálfara:
Nafn, staðsetning, sími og netfang, opnunartími, þjónusta sem boðið er upp á, framkvæmdastjóri (nafn, sími, netfang), starfsfólk (nafn, netfang, mynd er kostur). Þar sem sjúkraþjálfarar eru sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn tel ég æskilegt að þeir gefi upp vinnunetföng sín.
Stofnanir, öldrunarheimili, spítalar:
Tryggja að yfirhöfuð sé á heimasíðunni séu þær upplýsingar að boðið sé upp á sjúkraþjálfun á staðnum. Á mörgum heimasíðum stofnana eru ýmist engar eða gamlar/úreltar upplýsingar. Á flestum er afar erfitt að finna upplýsingar um sjúkraþjálfunina, jafnvel þótt einhverjar eru. Þarna þurfa að vera upplýsingar um:
Endurhæfing/sjúkraþjálfun í boði - hvar í húsnæðinu (t.d. hvaða inngangur, ef
margir)
Þjónusta sem stendur til boða
Hvort um göngudeildarþjónustu sé að ræða eða eingöngu sjúkraþjálfun fyrir
heimilismenn/inniliggjandi.
Starfsstaðir (ef fleiri en einn)
Beint símanúmer í sjúkraþjálfun og netfang (á alla staði, ef fleiri en einn)
Deildarstjóri/yfirsjúkraþjálfari, nafn, sími, netfang.
Ef eingöngu inniliggjandi fólk/heimilimenn þjónustaðir er ekki brýn þörf á nöfnum
starfsmanna.
Ef göngudeild, nöfn og netföng sjúkraþjálfara (mynd er kostur).
Skoðið ykkar eigin starfsstað og ímyndið ykkur að þið væruð almennur borgari að leita upplýsinga. Hversu vel gengur að finna ykkur og þá þjónustu sem þið veitið? Hversu auðvelt er að komast í samband við ykkur?
Að lokum vil ég hvetja þá félagsmenn sem
ekki hafa sett inn upplýsingar um sig á prófílinn sinn á physio.is að gera það
hið snarasta. Þetta er mikið notað við upplýsingaöflun, sérstaklega hjá
öðrum fagstéttum, það skiptir máli að allir sjái hversu öflug fagstétt við
erum!
Verum sýnileg – öll!
Unnur Pétursdóttir
Formaður Félags sjúkraþjálfara