Janúar 2018

Pistill formanns

Pistill formanns

Árið hófst á hefðbundinni tiltekt og skipulagsvinnu og var mér oft hugsað til þess að nú um áramótin eru liðin fimm ár frá sameiningu félaganna okkar þriggja í eitt félag sjúkraþjálfara. Svo langur tími er liðinn, að nú hafa bæst í okkar raðir fimm árgangar sjúkraþjálfara sem vita ekkert hvað ég er að tala um og muna ekki annað félag en okkar sameinaða Félag sjúkraþjálfara og er það vel.

Að mínu mati var þetta mikið gæfuspor og ég vona að flestir séu mér sammála í því. Sameinað fag- og kjarafélag með formann í fulla starfi hefur styrkst með hverju árinu og er nú rekstur þess orðinn straumlínulagaður og fyrirsjáanlegur, að því marki sem hægt er miðað við eðli fag-stéttarfélags og sýnileiki þess og fagsins aukist til muna.

Félagið hefur margháttaða starfsemi á sínum snærum, stundum eru það fagmálin sem eru í fyrirrúmi, en stundum kjaramálin. Nú í janúar hefur samningagerð við ríkið verið fyrirferðamesta verkefnið, fundað hefur verið stíft þessa síðustu viku og ég vonast til að draga fari til tíðinda.

Ánægjulegt var að sjá að margir ungir sjúkraþjálfarar sóttu nýjársfagnað félagsins þann 26. janúar sl. Í janúarmánuði fundaði ég með fræðslunefnd, námsbraut í sjúkraþjálfun, ritrýninefnd Sjúkraþjálfarans, framkvæmdanefnd um Dag sjúkraþjálfunar og svo er undirbúningavinna vegna ICPPMH 2018, alþjóðlegu ráðstefnunnar sem við erum gestgjafar að, í fullum gangi.

Framundan er aðalfundur félagsins þann 22. febrúar og undirbúningur fyrir Dag sjúkraþjálfunar og hvet ég félagsmenn til að skrá sig strax og fjölmenna. Þetta er dagur sem enginn sjúkraþjálfari má missa af.

Kveðja,
Unnur P
Form. FS