Að brúka bekki

Samstarfsverkefni félags sjúkraþjálfara og eldri borgara

Verkefnið gengur út á að komið sé fyrir hvíldarbekkjum á gönguleiðum nálægt félagsmiðstöðvum eldri borgara.



Forveri Félags sjúkraþjálfara, Félag Íslenskra Sjúkraþjálfara (FÍSÞ) varð 70 ára á árinu 2010. Í tilefni þess ákváðu sjúkraþjálfarar að fara af stað með samfélagsverkefni, sem hvatningu til aukinnar hreyfingar, til hagsbóta fyrir almenning. Eitt þeirra er verkefnið „Að brúka bekki“, framkvæmt í samvinnu við Félag eldri borgara.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að eldra fólk stundi hæfilega hreyfingu sér til heilsubótar. Niðurstöður þessara rannsókna sýna að með því að stunda reglubundna hreyfingu helst eldra fólk hressara og heilbrigðara lengur, er lengur sjálfbjarga og getur dvalið lengur heima. Það er því allt til þess vinnandi að hvetja eldra fólk til að hreyfa sig reglulega, m.a. með því að ganga úti reglulega.

Tvær íslenskar rannsóknir, báðar framkvæmdar af meistaranemum í heilbrigðisvísindum við HA, hafa leitt í ljós að eitt það helsta sem hindrar eldra fólk til göngu sér til heilsubótar, er skortur á bekkjum til hvíldar. Hálka er önnur títtnefnd hindrun (1,2).

Hugmynd verkefnisins er því að kortleggja, í samvinnu við svæðisbundin Félög eldri borgara, 1 km gönguleiðir, sem henta eldri borgurum og öðrum sem lakir eru til gangs. Tryggt verði að ekki verði meira en 250 m á milli bekkja, sem er forsenda þess að fjölmargir treysti sér til að ganga úti. Verkefnið hefur hlotið góðan hljómgrunn víða. 

Sjúkraþjálfarar á Akureyri riðu á vaðið og vígðu fyrstu tvær leiðirnar árið 2010. Nú eru þar fjórar leiðir sem liggja úr frá fjölbýlishúsum eldri borgara við Lindarsíðu, Víðilund, Hlíð og Mýrarveg.
Akureyri - yfirlit - allar leiðir 

Á Húsavík eru tvær leiðir út frá dvalarheimilinu Hvammi ásamt einni leið í suðurhverfi bæjarins og á Kópaskeri er gönguleið við sjávarsíðuna. 
Norðurþing - yfirlit - allar leiðir

Í Garðabæ liggja tvær leiðir frá Sjálandi og upp að verslunarmiðstöðinni Litlatúni.(Kort í vinnslu) 

Í Kópavogi eru gönguleiðir af þessu tagi komnar í Hamraborg, Gullsmára og við Boðaþing.
Kópavogur - Boðaþing 
Kópavogur - Gjábakki - austur 
Kópavogur - Gjábakki - vestur 
Kópavogur - Gullsmári 

Í Hafnarfirði eru komið þó nokkuð gott net leiða.
Hafnarfjörður - Brúkum bekki 

Í Mosfellsbæ eru tvær leiðir út frá miðbæjarkjarnanum.

Höfn í Hornafirði hefur nú, sumarið 2017, bæst í hóp sveitarfélaga sem brúka bekki. Þar eru nú komnar 3 góðar gönguleiðir.
Hornafjördur - heilsueflandi samfélag

Ráðgert er að fjölga leiðum eftir því sem efni og aðstæður leyfa.

 

Yngri aðstandendur eru hvattir til að aðstoða hina eldri við að finna kortin á vefsíðunni, prenta út og jafnvel ganga með þeim fyrsta hringinn. Sjúkraþjálfarar vonast til þess að íbúar í nágrenni þessara leiða notfæri sér bekkina óspart og láti takmarkaða göngugetu ekki hindra sig í að drífa sig út í góðan göngutúr. Það er stutt í næsta bekk!



1 Unnur Pétursdóttir, (2008). Áhrifaþættir þjálfunar hjá fólki með slitgigt. Hvað hvetur, hvað letur? Meistararitgerð í heilbrigðisvísindum, HA.
2 Guðfinna Björnsdóttir, (2010). Hvatar og hindranir á líkamsvirkni í þjónustuíbúðum aldraðra: Reynsla kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Meistararitgerð í heilbrigðisvísindum, HA.

Félag sjúkraþjálfara <> sjúkraþjálfun í 80 ár <> 1940 – 2020