Aðalfundur Félags sjúkraþjálfara fór fram þann 22. febrúar síðastliðinn

Gunnlaugur Már Briem var kjörinn nýr formaður félagsins og kosið var í trúnaðarstöður

24.2.2022

Tillaga um lækkuð kjaradeildargjöld var samþykkt ásamt lagabreytingum sem sneru að fastanefndum fagdeildar

Á aðalfundi Félags sjúkraþjálfara sem fram fór þann 22. febrúar sl. var Gunnlaugur Már Briem sjúkraþjálfari kjörinn nýr formaður Félags sjúkraþjálfara. Hann hefur núþegar tekið við störfum sem formaður af Unni Pétursdóttur.

Á fundinn mættu tíu félagar í sal og tuttugu félagar fylgdust með í streymi. Fundarstjóri aðalfundar var Arnbjörg Guðmundsdóttir.

Kári Árnason bættist við sem nýr meðlimur í stjórn en aðrir gáfu kost á sér áfram.

Stjórn Félags sjúkraþjálfara telst því fullskipuð og mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi nýs starfsárs. 

Í stjórn félagsins sitja:
Gunnlaugur Már Briem - formaður
Fríða Brá Pálsdóttir
Guðný Björg Björnsdóttir
Kári Árnason
Margrét Sigurðardóttir

Varamenn: Hjörtur Ragnarsson og Kristín Rós Óladóttir

Á fundinum bar stjórn fram tillögu um lækkuð kjaradeildargjöld og var sú tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Breytingin mun taka gildi frá og með 1. apríl 2022, en kjaradeildargjöldin verða lækkuð úr 1,2% og niður í 1,1%.

Eins var lögð fram lagabreytingartillaga sem snéri að fastanefndum félagsins og hún var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Framkvæmdanefnd um Dag sjúkraþjálfunar var sett inn í lög félagsins um fastanefndir fagdeildar sem stjórn skipar. Um ritnefnd var breytt í lögum á þann vegu að kosið er í þá nefnd á aðalfundi eins og aðrar kjörnar fastanefndir fagdeildar. Þar sem lagabreytingar komu á eftir kjöri í nefndir mun þetta ákvæði taka gildi á næsta aðalfundi en stjórn mun skipa ritnefnd fram að því.

Aðrar upplýsingar frá aðalfundi verða aðgengilegar í fundargerð sem sett verður á innri vef heimasíðu félagsins fljótlega. Við minnum einnig á að skýrslur stjórnar, nefnda og ársreikningar eru nú þegar aðgengilegar á innri vefnum.

Stjórn Félags sjúkraþjálfara