Akademískar nafnbætur

29.6.2023

Á dögunum fengu tveir sjúkraþjálfarar nafnbótina klínískur lektor og er það í fyrsta skipti sem sjúkraþjálfarar á Íslandi fá slíka nafnbót. Akademísk nafnbót er veitt á grundvelli reglu nr. 888-216 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna Landspítala og veitingu akademískra nafnbóta og samninga Háskóla Íslands.

Til að hljóta slíka nafnbót þarf heilbrigðisstarfsmaður að vera í starfi á Landspítala og með tengsl við HÍ (kennslu, rannsóknir ofl.). Síðan þarf að standast kröfur um akademiskt hæfi sem HÍ setur. Markmið með veitingu akademískrar nafnbótar er að styrkja og dýpka samstarf Landspítala og Háskóla Íslands á sviði rannsókna og kennslu. Verkefnastjóri fagmála tók þær Bergþóru Baldursdóttur og Ólöfu Rögnu Ámundadóttur tali.

„Akademíska nafnbótin og samningur við HÍ henni tengdri er mikil viðurkenning á störfum mínum og hæfni í akademískri vinnu.“ Segir Bergþóra, og Ólöf tekur í sama streng: „Hún er í raun viðurkenning á þeirri vinnu sem ég hef sinnt, bæði á Landspítala og við HÍ undanfarin ár. Ég hef verið í stöðu sérfræðings í gjörgæslusjúkraþjálfun við Landspítala þar sem ég skipti vinnutímanum á milli þess að sinna inniliggjandi sjúklingum, aðallega á gjörgæsludeild í Fossvogi og eftirfylgd sjúklinga eftir gjörgæslulegu.“

Þær eiga það sameiginlega að vera frumkvöðlar í faginu hér á landi. Ólöf lýsir þverfaglegu verkefni sem hún ásamt fleirum hefur þróað á gjörgæslu: „Ég, ásamt Rannveigu J Jónasdóttur sérfræðingi í gjörgæsluhjúkrun, er með starfsemi sem kallast Eftirgæsla eftir gjörgæslulegu. Þar bjóðum við upp á sérfræðiráðgjöf fyrir fólk sem hefur legið á gjörgæslu í 3 sólarhringa eða lengur. Við sendum bréf heim til fólks 2-3 mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Þau sem vilja koma, hringja og bóka tíma og hitta okkur á Landspítala. Við tökum viðtal um stöðuna á líkamlegri, félagslegri og andlegri heilsu þess, gerum ákveðnar mælingar, og veitum sérfræðiráðgjöf um bata og um hvert fólk getur leitað ef það þarf á frekari heilbrigðisþjónustu að halda.“ Verðugt og spennandi verkefni það.

Bergþóra hefur svipaða sögu að segja af frumkvöðlastarfi í faginu innan veggja landspítalans: „Skynörvandi jafnvægisþjálfun er þjálfunaraðferð sem ég ásamt leiðbeinanda mínum í doktorsverkefninu, dr. Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, þróuðum í sjúkraþjálfun á öldrunarlækningadeild Landspítala á Landakoti.“ Segir Bergþóra, en hún hefur í gegnum tíðina látið til sín taka innan öldrunarsjúkraþjálfunar og í rannsóknum og nýsköpun í byltuvörnum.

Þær kenna báðar við námsbraut í sjúkraþjálfun og hafa leiðbeint MSc. nemum auk þess að hafa báðar nýlokið doktorsprófi í sjúkraþjálfun og eru virkar í innra gæðastarfi spítalans.

Við óskum Bergþóru og Ólöfu innilega til hamingju með titilinn Klínískur Lektor.