Ályktun sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara

Samþykkt á félagsfundi þann 17. sept sl.

26.9.2019

Samþykkt á félagsfundi þann 17. sept sl.

Ályktun fundar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara á höfuðborgarsvæðinu

Félagsfundur sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í Félagi sjúkraþjálfara lýsir áhyggjum vegna fyrirhugaðs útboðs Sjúkratrygginga Íslands á sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt lýsir fundurinn vonbrigðum vegna skorts á samráði og upplýsingum varðandi þessa fyrirhuguðu grundvallarbreytingu á rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Brýnt er að útboði verði frestað og tíminn nýttur til að endurskoða forsendur þess. Eðlilegt er að miða við að fyrir liggi endurhæfingarstefna ríkisins áður en útboð fer fram.

Fundurinn lýsir áhyggjum af því aðgengi að þjónustunni minnki vegna niðurskurðar og í raun verði þá til tvöfalt kerfi – annars vegar fyrir þá sem háðir eru endurgreiðslum SÍ og hinna sem sjálfir geta staðið straum af kostnaði við þjónustuna. Í útboðinu er ekki tekið tillit til menntunarstigs sjúkraþjálfara eða mismunandi húsnæðiskostnaðar. Hætt er við að sjúkraþjálfunarstofur neyðist til að sækja að útjaðri höfuðborgarsvæðisins í ódýrasta húsnæðið sem völ er á.

Ef ekki verður komið til móts við sanngjarnar óskir sjúkraþjálfara blasir við óvissa um hvert samskipti við Sjúkratryggingar Íslands þróast. Fundurinn hvetur því SÍ til að koma til móts við sjúkraþjálfara og tryggja til framtíðar heilbrigðan grundvöll fyrir mikilvægri þjónustu þeirra við sjúklinga. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar lýsa sig reiðubúna til samráðs um úrbætur á forsendum útboðsins.


Samþykkt á félagsfundi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara FS þann 17. september 2019.