Bréf frá Sjúkratryggingum Íslands og viðbrögð Félags sjúkraþjálfara

Sjúkratryggingar Íslands óska eftir viðræðum við fyrirtæki sjúkraþjálfara

23.10.2020

Sjúkratryggingar Íslands óska eftir viðræðum við fyrirtæki sjúkraþjálfara

Mörgum stofum sjúkraþjálfara á höfuðborgarsvæðinu barst bréf frá SÍ í síðustu viku. Í bréfinu er stofunum boðið til viðræðna um samning, eða eins og í bréfinu segir:

“Eins og fram kom í auglýsingu sem birt var á vef Ríkiskaupa þann 30. ágúst 2019 var það markmið hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) að gera samninga um sjúkraþjálfun við fyrirtæki en ekki einstaklinga í samræmi við heilbrigðisstefnu. 
SÍ vilja bjóða NN til viðræðna um mögulegan samning. Ef áhugi er á slíkum viðræðum þá vinsamlega látið vita fyrir 26. október nk.”

Skv. upplýsingum sem samninganefnd hefur aflað var ekki öllum stofum á höfðuborgarsvæðinu boðnar viðræður og engum einyrkjum var boðið til viðræðna en þeir eru fjölmargir á svæðinu.

Að mati félagsins er hér um að ræða ólögmæta þvingunaraðferð til að koma á nýju skipulagi í kaupum á þjónustu sjúkraþjálfara á einkeypismarkaði. Daníel Isebarn Ágústsson, lögfr. félagsins hefur tekið saman minnisblað þar sem það er skýrt. Alvarleikinn er mikill, verið er að mismuna stofum og útiloka einyrkja. Án nokkurrar samræðu gæti starfsumhverfi sjálfstætt starfandi verið að breytast mikið.

Samninganefnd félagsins hefur nú sent bréf til SÍ fyrir þar sem fyrirhuguðu viðræðutilboði er mótmælt byggt á ólögmæti aðferðarinnar skv. minnisblaðinu, sjá hér:

Bréf til SÍ frá FS 

Samninganefndin minnir á að gildistími reglugerðar sem heimilar SÍ endurgreiðslur vegna sjúkraþjálfunar þrátt fyrir samningsleysi rennur út um næstu mánaðamót. Við reiknum með gildistíminn verði framlengdur enda of margt ófrágengið til að svo sé ekki gert, en fylgist vel með.


Fh. samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Unnur Pétursdóttir, form. FS
Haraldur Sæmundsson, form. samn.nefndar