Breyting á endurgreiðslureglugerð vegna sjúkraþjálfunar

Félagið hefur mótmælt því að bráðameðferðir falla út

5.11.2020

Félagið hefur mótmælt því að bráðameðferðir falla út

Þann 30. okt sl. var endurgreiðslureglugerð vegna sjúkraþjálfunar framlengd til 31. desember 2020.

Rétt er að rifja upp að frá 12. janúar sl. hafa sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar ekki starfað skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), enda rann síðasti samningur út á árinu 2019 án endurnýjunar. Síðan þá hafa sjúkraþjálfarar unnið án samnings skv. eigin gjaldskrá en skjólstæðingar njóta engu að síður endurgreiðslu kostnaðar skv. gömlu SÍ gjaldskránni skv. reglugerðum sem heilbrigðisráðherra setur. Fyrsta reglugerðin var birt þann 12. Janúar, og hefur verið framlengdí tvígang, nú síðast með gildistíma til 31. desember.

Sjá: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/hrn/nr/1364-2019

Í upphaflegu reglugerðinni var þessi setning í 4. mgr:

Forsenda fyrir endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands er að fyrir liggi skrifleg beiðni frá lækni þar sem fram kemur sjúkdómsgreining. Þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði vegna bráða­meðferðar, sem nemur allt að 6 skiptum á 12 mánaða tímabili.

Í þeirri reglugerð sem birt var nú 30. okt segir að þessi setning falli út: “Þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði vegna bráða­meðferðar, sem nemur allt að 6 skiptum á 12 mánaða tímabili.”

Þetta þýðir að SÍ hafa ekki lengur heimild til að taka þátt í kostnaði við sjúkraþjálfun þeirra sem ekki framvísa tilvísun frá lækni. Minnt er á að engu að síður er sjúkraþjálfurum enn heimilt að taka fólk til meðferðar án tilvísunar, en það fær enga niðurgreiðslu frá SÍ.

Félag sjúkraþjálfara hefur nú þegar sent bréf til Heilbrigðisráðherra þar sem þessari ráðstöfun er mótmælt, sjá:

Bréf frá Félagi sjúkraþjálfara til HRN 

Velferðarnefnd Alþingis hefur verið upplýst um málið sem og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir landsbyggðarinnar, enda kemur þessi breyting afar illa við marga okkar skjólstæðinga og mun óneitanlega auka álagið á Heilsugæsluna.

Unnur Pétursdóttir
Form. FS