Degi sjúkraþjálfunar 2020 hefur verið frestað

10.3.2020

Stjórn FS hefur tekið ákvörðun um að fresta Degi sjúkraþjálfunar um óákveðinn tíma, væntanlega fram á haustið

Ágætu félagsmenn

Skjótt skipast veður í lofti og ljóst að Kórónaveiran er að setja strik í alla reikninga. Við höfum alið þá von í brjósti að óhætt væri að halda Dag sjúkraþjálfunar og skv. upplýsingum sem við fengum fyrir helgi var það enn óhætt, en nú hafa borist nýjar leiðbeiningar og ráðleggingar frá Embætti Landlæknis sem valda því að stjórn FS telur ekki ráðlegt að halda Dag sjúkraþjálfunar nú í mars.

Þótt ekki sé búið að setja á samkomubann er ljóst að við berum ábyrgð sem heilbrigðisstarfsmenn að stuðla ekki að dreifingu veirunnar. Við erum í miklum samskiptum við fólk sem telst vera í áhættuhópi, auk þess við getum verið það sjálf. Við viljum líka að allir geti komið á daginn og það er hætt við að margir sæju sér ekki fært að mæta, þótt dagurinn yrði haldinn.

Því hefur stjórn FS tekið þá ákvörðun að fresta Degi sjúkraþjálfunar um óákveðinn tíma, væntanlega fram á haustið.

Ekki er búið að ákveða hvernig undið verður ofan af þeim undirbúningi sem nú þegar hefur átt sér stað – s.s. gagnvart þeim sem nú þegar hafa skráð sig á daginn, en við munum koma þeim upplýsingum til ykkar innan tíðar.

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS