Doktorsvörn - Abigail Grover Snook sjúkraþjálfari

Abigail Grover Snook ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Íslands

22.5.2020

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum miðvikudaginn 27. maí kl. 13:00

Miðvikudaginn 27. maí ver Abigail Grover Snook doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt hér.

Ritgerðin ber heitið: Rannsókn á þörfum, áhugahvöt og sjálfsmynd kennara í heilbrigðisvísindum – Grunnur fyrir betri kennslufræðilegan stuðning við háskólakennara. (Exploring the needs, motivations, and identity of health science educators – A basis for improved support for university teachers).

Andmælendur eru dr. Yvonne Steinert, prófessor við McGill University í Kanada, og dr. Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Ásta Bryndís Schram, lektor í námssálarfræði, og umsjónarkennari var dr. Þórarinn Sveinsson, prófessor í sjúkraþjálfun. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Brett Jones, prófessor í námssálarfræði við Virginia Tech, dr. Sólveig A. Árnadóttir, dósent og dr. Anestis Divanoglou, dósent, bæði við námsbraut í sjúkraþjálfun, Læknadeild.

Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip

Í þessari rannsókn var rýnt í leiðir til að styðja kennara í heilbrigðisvísindum til kennsluþróunar, m.a. með það fyrir augum að efla gæði kennslu sinnar. Aðalmarkmið rannsóknarinnar voru: í fyrsta lagi að bera saman stundakennara og fastráðna kennara hvað varðar áhugahvöt, viðhorf, sjálfsmynd og þörf fyrir kennslufræðilegan stuðning; í öðru lagi að skoða afstöðu kennara til og notkun þeirra á ákveðnum þáttum í kennsluumhverfinu sem styrkja áhugahvöt nemenda, meðal annars til að greina áskoranir í því umhverfi; og í þriðja lagi að setja fram tillögur, byggðar á niðurstöðunum, um hvernig hægt væri að styðja kennara og háskóladeildir til að efla gæði kennslu. Notað var blandað, skýrandi raðsnið (sequential, explanatory mixed methods design) sem byggðist á umfangsmikilli megindlegri könnun og síðan rýnihópum. Allar niðurstöður voru samþættar og tillögur til úrbóta, þ.e. hvernig hægt væri að veita kennurum aukinn stuðning, voru þróaðar í anda gagnrýnikenninga (critical theory research paradigm).

Um doktorsefnið

Abigail Grover Snook útskrifaðist með BA í eðlisfræði frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 1983 og M.Sc. í sjúkraþjálfun frá Columbia University í New York árið 1986. Frá 1996 til 2002 starfaði hún sem lektor við sjúkraþjálfunardeild HÍ. Þá sneri hún aftur til Bandaríkjanna og lauk M.Ed. frá Post University í Connecticut árið 2015. Hún flutti aftur til Íslands árið 2017 og gerðist stundakennari og doktorsnemi. Eiginmaður hennar er dr. Curtis P. Snook, sérfræðingur í bráðalækningum og eiturefnum á Landspítala. Hún á þrjú börn, Aron (30), Andy (29), og Maríu (26) sem öll starfa í Bandaríkjunum.

Abigail_Grover_Snook

Tekið af vef HÍ 22.5.2020