Endurgreiðslureglugerð framlengd til 30. apríl 2022

Félaginu hafa borist upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um framlengingu og breytingar á endurgreiðslureglugerð vegna sjúkraþjálfunar

28.1.2022

Félaginu hafa borist upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um framlengingu og breytingar á endurgreiðslureglugerð vegna sjúkraþjálfunar


Félagi sjúkraþjálfara barst eftirfarandi tilkynning frá Heilbrigðisráðuneytinu í dag, 
28. janúar 2022:

Reglugerð nr. 1364/2019 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratrygginga Íslands verður framlengd til og með 30. apríl nk. með eftirfarandi viðbót:

Kröfur um aðbúnað og lágmarksstærð sjúkraþjálfunarstofu

Endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt reglugerð þessari er háð því skilyrði að sjúkraþjálfunarstofa sú sem sjúkratryggður sækir þjónustu á uppfylli eftirfarandi kröfur um lágmarksstærð og útbúnað:

1. Húsnæði og tækjabúnaður skal vera aðgengilegur hreyfihömluðum og undir sama þaki. Í húsnæðinu skal vera rými fyrir þau tæki og búnað sem kveðið er á um í lista um lágmarksbúnað, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari. Miðar sú upptalning við starfstöð eins til tveggja sjúkraþjálfara. Bæta þarf við búnaði og tækjum í samræmi við stærð og eðli starfseminnar.

2. Æfingaaðstaða og fjöldi meðferðarklefa skal jafnframt vera í samræmi við umfang og eðli starfseminnar. Æfingaaðstaða skal vera nægjanlega rúmgóð og vel tækjum búin svo að lágmarki helmingur starfandi sjúkraþjálfara og þeirra skjólstæðingar geti verið í æfingameðferð þar á sama tíma.

3. Baðaðstaða skal vera til staðar sé boðið upp á hópþjálfun.

4. Bjóða skal upp á lokað herbergi þegar tekið er við persónulegum upplýsingum.

Ef húsnæði er samnýtt með annarri starfsemi, t.d. líkamsræktarstöð, skal tryggja að sjúkraþjálfunarstofan hafi eðlilegt rými og æfingaaðstöðu. Þegar um samnýtingu er að ræða skal þó ávallt vera fyrir hendi æfingaaðstaða sem eingöngu er ætluð starfsemi sjúkraþjálfunar. Ef sjúkraþjálfunarstofa er samnýtt með líkamsræktarstöð þarf að tryggja óheft aðgengi að æfingaaðstöðu.

Húsnæðið skal uppfylla allar opinberar kröfur sem gerðar eru til sjúkraþjálfunarstofu, m.a. faglegar lágmarkskröfur embættis landlæknis, og hafa tilskilin leyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags.

-----   -----   -----

Faglegar lágmarkskröfur má finna hér:

https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisthjonusta/rekstur/faglegar-krofur/

Tilkynningin hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðinum þegar þetta er ritað, en verður væntanlega birt að kvöldi 31. janúar.

Unnur P
Form FS.