Endurhæfing í heimaþjónustu

Nýtt þjónustuúrræði hjá Reykjavíkurborg

4.1.2018

Nýtt þjónustuúrræði hjá Reykjavíkurborg

Hugmyndin að endurhæfingu í heimahúsum hófst hjá Fredericia sveitarfélaginu í Danmörku árið 2007 fyrir eldri borgara. Sú þjónusta hefur sýnt jákvæðan árangur og hefur því verið innleidd með svipuðum hætti víða um heim. Þann 27. apríl 2017 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að hefja undirbúning endurhæfingar í heimahúsum í kjölfar tilraunaverkefnis á vegum borgarinnar í Efri-byggð á árunum 2014-2015 með ráðningu verkefnisstjóra. Endurhæfingarteymið er skipað af hjúkrunarfræðingi, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sjúkraliðum og félagsliðum sem starfa í nánu samstarfi við heimahjúkrun, félagslega heimaþjónustu, heimilislækna og aðrar fagstéttir.

Endurhæfing í heimaþjónustu er persónumiðuð þjónusta sem fer fram inn á heimili viðkomandi og er frábrugðin almennri heimaþjónustu að því leyti að markmið þjónustu er að virkja einstaklinginn til að gera það sem hann getur svo hann geti búið sem lengst heima sjálfbjarga að hluta eða öllu leyti. Þjónustan felur í sér tímabundna þjálfun og ráðgjöf til að auka færni, virkni og bjargráð í athöfnum daglegs lífs (adl) sem og samfélagsþátttöku. Í upphafi þjónustu er lagt fyrir matstækið Canadian Occupational Performance Measurement (COPM) þar sem einstaklingurinn ákveður hvar hann telur sig skorta færni og setur sér markmið auk þess sem lagt er fyrir Short Physical Performance Best (SPPB) eða önnur matstæki ef þörf er á. Endurhæfingaráætlun byggist á niðurstöðum matstækja og þeim markmiðum sem skjólstæðingurinn setur sér og er endurmetin reglulega. Í lok þjónustu er árangur þjónustu metinn með því að endurtaka fyrirlögn matstækja.

Gert er ráð fyrir að teymið hefji störf 1. mars nk þar sem búið er að ráða í allar stöður fyrir utan stöðu sjúkraþjálfara, sem er laus til umsóknar. Nánari upplýsingar um starfið veitir Guðrún Jóhanna í síma 821-2397 og tölvupósti gudrun.johanna.hallgrimsdottir@reykjavik.is. Umsóknarfrestur er til 14. janúar 2018, sjá nánar hér: http://reykjavik.is/laus-storf/vel?starf=00003971

 

Fréttatilkynning frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar