Fækkun skipta í sjúkraþjálfun

Ný reglugerð skerðir rétt sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar

3.1.2019

Ný reglugerð skerðir rétt sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar

Nú korteri fyrir áramót bárust þau tíðindi að heilbrigðisráðuneytið hefði gefið út endurskoðaða reglugerð sem m.a. felst í því að réttur sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar er skertur, hámarksfjöldi meðferðarskipta er  nú 15 skipti í stað 20 áður.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=7fce40d3-a83f-4fec-b632-9296937fd1db – sjá grein 20.

Stjórn og kjaranefnd FS harmar þessa ákvörðun heilbrigðisráðuneytis og telur hana í hróplegri mótsögn við þá stefnu stjórnarvalda að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Skerðing upp á 25% er mikil skerðing og veldur bæði skjólstæðingum skaða í formi hugsanlegrar ónógrar þjónustu en einnig veldur þetta auknu vinnuálagi á sjúkraþjálfara, sem nú þurfa oftar að leggja vinnu í gerð framhaldsbeiðna.

Í ljósi langra biðlista á öllum stöðum er það einnig ljóst að ráðstöfun af þessu tagi sparar ekkert í krónum talið fyrir ríkið og því óskiljanleg.

Neðangreind fréttatilkynning hefur verið send á alla fjölmiðla, sem og til heilbrigðisráðherra og forstjóra SÍ:

Félag sjúkraþjálfara harmar þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að skerða rétt sjúkratryggðra til sjúkraþjálfunar, eins og gert er með nýrri reglugerð nr. 1251/2018 sem tók gildi nú um áramót og telur hana í hróplegri mótsögn við þá stefnu stjórnarvalda að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fækkun greiddra meðferðarskipta um 25%, úr 20 skiptum í 15 er gríðarleg skerðing og hefur áhrif á talsverðan fjölda þeirra skjólstæðinga sem til sjúkraþjálfara leita.

Sjúkraþjálfarar fögnuðu nýju greiðsluþátttökukerfi sem tekið var upp 1. maí 2017, þar sem ljóst var að það myndi jafna mjög aðstöðumun skjólstæðinga og gefa þeim efnaminni þannig tök á að nýta sér nauðsynlega þjónustu sjúkraþjálfara eftir þörfum, en ekki efnahag. Sú staðreynd að það orsakaði aukna aðsókn var fyrirséð og sýndi að of margir höfðu neitað sér um þessa þjónustu vegna kostnaðar. Þau viðbrögð ráðuneytisins nú að skerða þjónustuna aftur með öðrum aðferðum eru sjúkraþjálfurum mikil vonbrigði.

Uppfært: Málefnið var tekið upp hjá Stöð 2, þar sem varaformaður okkar, Gunnlaugur Briem var í kvöldfréttum 3. janúar og tekið var símaviðtal við mig hjá fréttum RUV, sjá:  http://www.ruv.is/frett/breytingin-illskiljanleg-og-ekki-til-sparnadar


Með kveðju,
Unnur P
Form FS.