Fagnefnd Evrópudeildar sjúkraþjálfara mun funda á Íslandi í febrúar 2019

Formaður Evrópudeildarinnar, ER-WCPT, kemur með hópnum til landsins

28.10.2018

Formaður Evrópudeildarinnar, ER-WCPT, kemur með hópnum til landsins

Það er ánægjulegt að segja frá því að fagnefnd Evrópudeildar sjúkraþjálfara mun funda á Íslandi dagana 15. – 16. febrúar 2019 í húsnæði okkar hjá BHM, Borgartúni 5, Reykjavík. Formaður nefndarinnar er Esther-Mary D'Arcy, sem er einnig formaður Evrópudeildarinnar, ER-WCPT og einnig mun David Gorria, framkvæmdastjóri ER-WCPT koma með hópnum til landsins.

Nefndin er skipuð 8 sjúkraþjálfurum frá jafnmörgum evrópskum löndum og eru  þessir sjúkraþjálfarar tilnefndir af sínum félögum, sem einnig greiða kostnað af þátttöku þeirra í nefndinni og leggja þannig sinn skerf að af mörkum til Evrópustarfs sjúkraþjálfara.

Helstu verkefni nefndarinnar eru samhæfing ýmislegs er varðar t.d. kröfur sem gera á til sjúkraþjálfara, sérfræðiviðurkenningar,  klínískar leiðbeiningar, gæðamál og fleira. Einnig að tryggja stöðu sjúkraþjálfunar innan Evrópusambandsins og innan þess er þátttaka í svokölluðu European Forum, en þar er einn nefndarmanna ráðgjafi um allt er varðar sjúkraþjálfun í heilsugæslu.

Við munum nota tækifærið og höfum fengið vilyrði fyrir fundum með þessum aðilum hjá bæði heilbrigðisráðuneyti og þróunarskrifstofu heilsugæslunnar.

 PI-WG-2

Nefndarmenn eru, f.vi: David Gorria, framkvæmdastjóri (Spánn), Carlo Saad (Líbanon), Esther-Mary D'Arcy, forseti ER-WCPT (Írland), Jill Long (Írland), Nirit Rotem (Ísrael), Guus Meerhof (Holland), Nicole Muzar (Austurríki), Victoria Massalha (Malta), Charlotte Cruzander (Svíþjóð).


Dagskráin er enn í mótun, en ráðgert er að halda opinn fund með nefndinni sem félagsmönnum verður boðið að koma á, en þetta verður allt auglýst nánar síðar.

 

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS