Fagtímaritið Sjúkraþjálfarinn kominn í 10 stiga flokk samkvæmt matskerfi opinberra háskóla

Ritrýndar greinar sem birtast hér eftir í Sjúkraþjálfaranum eru nú formlega viðurkenndar sem vísindagreinar

30.8.2023

Ritrýndar greinar sem birtast hér eftir í Sjúkraþjálfaranum eru nú formlega viðurkenndar sem vísindagreinar

Í ágúst bárust okkur í Félagi sjúkraþjálfara þær ánægjulegu fréttir að fagtímaritið okkar, Sjúkraþjálfarinn, hefur verið færður úr 5 stiga flokki og í 10 stiga flokk samkvæmt matskerfi opinberra háskóla. Fræðileg ritstjórn og Félag sjúkraþjálfara í samvinnu við starfandi ritnefndir hverju sinni, hefur unnið ötullega að því undanfarin 11 ár að þessu markmiði og því er það stór áfangi sem hér hefur verið náð. Sjá nánar í grein frá formanni Fræðilegrar ritstjórnar sem einmitt birtist í Sjúkraþjálfaranum á vormánuðum 2022 .

Þetta þýðir að ritrýndar greinar sem birtast í Sjúkraþjálfaranum eru nú formlega viðurkenndar sem vísindagreinar skv. íslenskum stöðlum. Þetta er viðurkenning fyrir fagið okkar sem mun án efa hafa þau áhrif að fleiri munu sækjast eftir því að fá ritrýndar greinar birtar í Sjúkraþjálfaranum. 

Við bindum miklar vonir við að þessi viðurkenning verði enn meiri lyftistöng fyrir það fræðilega starf sem unnið er ásamt því að hvetja öll sem birta vísindagreinar að gera það í blaðinu okkar. 

Sjúkraþjálfarinn hefur komið út í prenti og sendur heim til félagsfólks í fjölda ára. Nú er hægt að nálgast rafrænar útgáfur af blaðinu frá árinu 2013 ásamt því að frá árinu 2021 hefur verið hægt að lesa blaðið á flettiformi á vefnum okkar. Sjá nánar hér.

Til hamingju með áfangann allir sjúkraþjálfarar!