Félag sjúkraþjálfara mælir gegn notkun hnykkmeðferða og liðlosunar á ungabörn

11.3.2025

Stjórn Félags sjúkraþjálfara lýsir yfir stuðningi við alþjóðlegt afstöðuskjal er varðar notkun hnykkmeðferða og liðlosunar við meðhöndlun ungabarna, barna og unglinga (“Paediatric Manipulation and Mobilisation – Evidence based practice – Position statement” 2024).

Skjalið er gefið út á vegum heimssamtaka sérfræðinga í greiningu og meðferð stoðkerfis (IFOMPT) og heimssamtaka barnasjúkraþjálfara (IOPTP).

Er það mat Félags sjúkraþjálfara að við meðhöndlun viðkvæmra hópa eins og ungabarna, barna og unglinga sé mikilvægt að notast sé við gagnreyndar aðferðir og bestu þekkingu hverju sinni. Því beinir Félag sjúkraþjálfara þeim skilaboðum til sjúkraþjálfara og annarra er koma að meðhöndlun ungabarna, barna og unglinga að hafa þessar upplýsingar til hliðsjónar við ákvörðun meðferðaleiða og ráðlegginga um úrræði.

Stoðkerfiseinkenni og einkenni ótengd stoðkerfi

Afstaða var tekin til notkunar liðlosunar og hnykkmeðferða við bæði einkennum sem tengd eru stoðkerfi líkamans sem og einkennum sem teljast ekki stoðkerfistengd.

Mælt er gegn allri notkun hnykkmeðferða og liðlosunar við einkennum sem ekki eru stoðkerfistengd hjá aldurshópnum 0 – 18 ára. Til slíkra einkenna teljast m.a. ungbarnakveisa, vandamál tengd brjóstagjöf, ósjálfráð næturþvaglát, eyrnabólga, ADHD, astmi, CP og einhverfutengd einkenni. Rökstuðningur þessarar afstöðu er sá að rannsóknir sýna ekki fram á gagnsemi slíkrar meðhöndlunar, og beinlínis sýna fram á að ekki sé gagn við tileknum vandamálum. Auk þess sem áhætta getur verið fólgin í veitingu slíkrar meðferðar. Þær kenningar sem meðhöndlun óstoðkerfistengdra einkenna með liðlosun og hnykkingum hjá þessum aldurshópum hafa verið rökstuddar með eru t.d. hreyfiójafnvægi í efri hálshrygg (kinematic imbalance due to suboccipital strain) eru taldar byggja á veikum lífeðlisfræðilegum grunni og ekki studdar með rannsóknum. Verulega skortir á frekari rannsóknir til stuðnings slíkri meðferð vegna einkenna sem ekki eru stoðkerfistengd ef mæla ætti með.

Við notkun hnykkmeðferða og liðlosunar við meðhöndlun stoðkerfiseinkenna er mikilvægt horfa til aldurs og einkenna þeirra sem fá meðhöndlun.

Mælt er gegn allri notkun liðlosunar og hnykkmeðferða við meðhöndlun ungabarna (0-2 ára).

Mælt er gegn notkun liðlosunar og hnykkmeðferða í mjóbaki og hálsi við meðhöndlun barna (2 – 12 ára). Liðlosun og hnykkmeðferð í brjóstbaki var talin geta verið viðeigandi meðferð við tilteknum stoðkerfiseinkennum eins og skertri hreyfigetu í hryggsúlu sem tengist háls- og bakverkjum og hálsverkjum með höfuðverk.

Liðlosun og hnykkmeðferð getur verið viðeigandi meðferðarform í meðhöndlun unglinga (13 – 18 ára) til að meðhöndla einkenni tengd skertri hreyfigetu í hryggsúlu sem tengist háls- og bakverkjum og hálsverkjum með höfuðverk. Meðhöndlun barna og unglinga þarf að byggja á rökstuddu klínisku mati heilbrigðisstarfsfólks.

Félag sjúkraþjálfara telur að almenn notkun liðlosunar og hnykkmeðferða eigi eingöngu að vera framkvæmd af viðurkenndu heilbrigðisstarfsfólki sem hafi hlotið til þess menntun, klíniska þjálfun og tilskilin réttindi hér á landi.

Bein og óbein áhrif meðhöndlunar

Bein alvarleg skaðleg áhrif liðlosunar og hnykkmeðferða eru sem betur fer sjaldgæf, en vægari áhrif algengari. Því er mikilvægt að leitast sé við að beita gagnreyndum leiðum og fyllsta öryggis við meðferðarval.

Það er ekki síður mikilvægt að huga að mögulegum óbeinum skaðlegum áhrifum þess að veita og/eða ráðleggja meðferð sem ekki er byggð á bestu þekkingu og rannsóknum á hverjum tíma. Óbein áhrif slíks geta einkum verið seinkun á réttri greiningu og meðferð.

Snemmtæk greining og meðferð er lykilþáttur í farsælli meðhöndlun á ýmsum einkennum ungabarna og forsenda góðs árangurs og bata samhliða því að lágmarka þörf á sérhæfðri meðferð.

Á Íslandi er t.a.m. fjöldi ungabarna á ári hverju sem fær ekki viðeigandi meðferð og greiningu við algengu einkenni eins og ósamhverfu í hálshreyfingum og skekkju á höfuðkúpu. Ætla má að á Íslandi sé fjöldi barna með ósamhverfu og höfuðskekkju yfir 400 á ári hverju og að hið minnsta 10-15% þeirra fái ekki fullnægjandi ráðleggingar og eða rétta meðferð á réttum tíma. Ef viðeigandi meðferð hefst of seint tekur hún lengri tíma og minni líkur eru á fullum bata auk þess sem auknar líkur eru á að þurfi kostnaðarsamari inngrip. Ef ungabörn fá viðeigandi meðferð og foreldrar fá fræðslu og leiðsögn á fyrstu 3 – 4 mánuðum barnsins þá nær langsamlega stærsti hluti þeirra fullum bata án umfangsmikillar meðferðar. En ætla má að meðalmeðferðarfjöldi sjúkraþjálfara sé á bilinu 3,5 – 5 skipti. Er þetta einungis ein af mörgum greiningum sem vert er að horfa til við ákvörðun meðferða fyrir börn frá fæðingu til 18 ára .

Mikilvægt er að stuðla að góðri upplýsingagjöf til almennings og heilbrigðisstarfsfólks til að styðja við upplýsta ákvarðanatöku og stefnumörkun, og er þetta sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða val á meðferðarleiðum fyrir viðkvæma hópa eins og ungabörn, börn og unglinga.

Fh. Stjórnar Félags sjúkraþjálfara, Faghóps um sjúkraþjálfun barna og Félags sérfræðinga í stoðkerfissjúkraþjálfun
Gunnlaugur Briem, Formaður Félags sjúkraþjálfara