Félag sjúkraþjálfara mótmælir fyrirhuguðum breytingum á lögum um sjúkratryggingar
06.10.2025
Félag sjúkraþjálfara lýsir yfir áhyggjum af þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.
Í drögunum er meðal annars gert ráð fyrir því að Sjúkratryggingar fái heimild til að stýra verði þjónustunar í samningsleysi og mæla fyrir um magn viðkomandi þjónustu. Heimilt verði að taka þætti þjónustunar út fyrir afsláttarstofn einstaklinga, sem myndi leiða til aukins kostnaðar fyrir almenning og samhliða hafa áhrif á aðengi. Boðaðar eru auknar kvaðir og kostnaður á þjónustuveitendur, auk þess að settar væru kröfur um rekstrarform þjónustuveitenda sem ekki eru í gildandi samningum eða hafa verið til umræðu. Einnig eru óljósir þættir er varðar öflun og veitingu upplýsinga.
Mikilvægt er að hafa í huga að eftir mikinn þrýsting frá Félagi sjúkraþjálfara um að gengið væri til samninga var loks bundinn endir á 5 ára samningsleysi í október 2024 eða fyrir sléttu ári síðan. Með þessum samningi náðist að koma á faglegri umgjörð um þjónustuveitingu, bættu aðgengi og fyrirsjáanleika í rekstri. Teljum við því skjóta skökku við að boðaðar séu lagabreytingar sem breyta vissum forsendum samninga svo stuttu síðar.
Núverandi lagafrumvarp þarf að taka breytingum til að að ekki verði aukin hætta á að rof komi á nauðsynlega þjónustu ýmissa heilbrigðisstétta síðar. Tryggja þarf að traust sé á milli samningsaðila , og að ekki skapist aukinn kostnaður fyrir almenning við að sækja sér þjónustu.
Í núverandi drögum að lagabreytingum eru þó einnig jákvæðar tillögur að mati félagsins einkum er við kemur styttingu á biðtíma þess að vera sjúkratryggður hér á landi og áherslum um hagrænt mat þeirrar þjónustu sem veitt er. Félag sjúkraþjálfara hefur um langt skeið þrýst á faglega gagnaöflun til að styðja við og styrkja þjónustu til almennings.
Við komandi vinnu þarf að tryggja öflugt samráð milli aðila.