Formaður BHM leiðir kjaraviðræður aðildarfélaga bandalagsins
Aðildarfélög BHM koma sameinuð að samningaborðinu nú þegar blásið hefur verið í herlúðra víða á vinnumarkaði
Formannaráð BHM mælist til að Friðrik, ásamt fulltrúum viðræðunefndar BHM, hefji tafarlaust samtal við viðsemjendur og stjórnvöld fyrir hönd aðildarfélaganna.
Formannaráð BHM, sem samanstendur af öllum 27 formönnum aðildarfélaga BHM, hefur samþykkt tillögu þess efnis að fela Friðriki Jónssyni, formanni bandalagsins, viðræðuumboð vegna komandi kjaraviðræðna. Félögin hafa síðustu ár sjálf farið með sitt umboð en hafa nú ákveðið að hefja viðræður sameinuð undir forystu Friðriks.
Í tillögunni er mælst til þess að Friðrik, ásamt fulltrúum viðræðunefndar BHM, hefji tafarlaust samtal við viðsemjendur og stjórnvöld fyrir hönd aðildarfélaganna.
Samhliða þeirri vinnu munu aðildarfélög BHM áfram vinna að útfærslu einstakra kröfugerða sinna gagnvart einstökum viðsemjendum.
Með þessu áréttar formannaráðið mikilvægi þess að aðildarfélög BHM vinni þétt saman að sameiginlegum baráttumálum og hagsmunum, þannig verður sterk rödd bandalagsins tryggð í þeim kjaraviðræðum sem fram undan eru.
„Það er mikilvægt veganesti inn í komandi kjaravetur að aðildarfélög BHM séu sameinuð um breiðu línurnar nú þegar blásið hefur verið í herlúðra víða á vinnumarkaði. Kjarasamningar á opinberum markaði renna út í lok mars og í því verðbólguumhverfi sem við nú búum við er ljóst að BHM verður að koma snemma að stóra borðinu og að áherslur millitekjuhópa þurfa að hljóta hljómgrunn. Tækifærin í stöðunni eru augljóslega mýmörg. Nægir þar að nefna að tryggja að kaupmáttur verði verndaður, að hið gamla loforð um jöfnun launa á milli markaða verði sett í trúverðugt ferli og að hið löngu útrunna loforð um umbætur á skökku verðmati kvenlægra stétta verði lagað. Línurnar eru alveg skýrar og í mínum huga er ekki eftir neinu að bíða. Hefjum skynsamt samtal strax,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.