Fundur með heilbrigðisráðherra

Fulltrúar félagsins ræddu við heilbrigðisráðherra þann 21. nóv sl.

22.11.2018

Fulltrúar félagsins ræddu við heilbrigðisráðherra þann 21. nóv sl.

Formaður FS, Unnur Pétursdóttir og fulltrúar samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, þau Kristján Hjálmar Ragnarsson og Auður Ólafsdóttir gengu á fund heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur sl. miðvikudag, 21. nóvember.

Byrjað var á að ræða að nýtt greiðsluþátttökukerfi hefði virkað vel, rætt var um aukna aðsókn í sjúkraþjálfun og að nýjar tölur um lækkandi nýgengi örorku vegna stoðkerfissjúkdóma væru athyglisverðar.

Farið var yfir stöðu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í ljósi þeirra misvísandi upplýsinga sem okkur hafa borist undanfarið og  voru um það góðar umræður. Ráðherra lagði áherslu á gæði og heildarsýn og að líta þyrfti á rammasamning sjúkraþjálfara sem samþættan hluta af heilbrigðiskerfinu í heild. Hún tók jafnframt fram að alls staðar í ríkisrekstri verði að vera rammi og girðingar varðandi fjárútlát en sagði að e.t.v. hafi verið vanmat á þörfinni fyrir þjónustu sjúkraþjálfara. Hún sagði sína sýn vera þá að styrkja beri opinbera heilbrigðiskerfið en það þýði ekki að hún vilji einkarekstur feigan.

Ráðherra var spurð beint að því hvort vænta megi einhverra einhliða breytinga fram að nýjum samningi og svarið var að farið verði í óhjákvæmilegar breytingar í gegnum samningviðræður um nýjan samning. Við túlkum það þannig að ráðherra hafi svarað því skýrt að ekki verði um neinar breytingar að ræða fram að samningaviðræðum.


Unnur Pétursdóttir
Formaður FS