Fyrstu kynningar MS verkefna í sjúkraþjálfun skv nýju námsfyrirkomulagi

Frá námsbraut í sjúkraþjálfun

29.5.2019

Frá námsbraut í sjúkraþjálfun

Frá námsbraut í sjúkraþjálfun

Föstudaginn 24. maí sl fóru fram fyrstu kynningar/varnir MS verkefna í sjúkraþjálfun skv. nýja námsfyrirkomulaginu. Haldin var 21 kynning.

CropGuðný Lilja Oddsdóttir, verkefnisstjóri kennslumála og starfsmaður meistaranefndar námsbrautarinnar, setti dagskrána af stað og bauð Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindassviðs Háskóla Íslands, í pontu, en þess má geta að forseti Læknadeildar, Engilbert Sigurðsson, var einnig viðstaddur opnunina. Meðal þess sem kom fram í ávarpi sviðsforseta var ánægja með breitt svið lokaverkefnanna, en einnig með þróun náms og rannsókna á sviði sjúkraþjálfunar undanfarin ár.

Mynd: Inga Þórsdóttir setur daginn

Námsbrautin á í góðri samvinnu við aðrar deildir, háskóla, og fyrirtæki, hérlendis sem erlendis, sem er í samræmi við stefnu Heilbrigðisvísindasviðs, og styður við gæði kennslu og rannsókna, og mun þannig efla stöðu greinarinnar.

Kynningar og varnir meistaranema fóru af stað á slaginu 8:25 og voru með þeim hætti að nemandi kynnti verkefnið á 10 mínútum og ræddi síðan við prófara í 15 mínútur, áður en aðrir viðstaddir gátu komið með spurningar eða athugasemdir. Málstofurnar voru tvær þannig að hægt væri að ljúka öllum erindum samdægurs, en áheyrendum gafst alltaf tími til að færa sig á milli salarkynna að vild.

Í lok dags þakkaði Kristín Briem, námsbrautarstjóri, nemendum, leiðbeinendum og prófurum fyrir daginn, enda ljóst að vandað hafi verið til verka í alla staði. Hún þakkaði einnig öllum sem lögðu hönd á plóg í gegnum ferlið við að breyta náminu, sem hefur í raun staðið í áratug frá hugmynd að fyrstu útskrift í vor, og óskaði nemendum velfarnarðar sem sjúkraþjálfarar og sem kennarar og leiðtogar framtíðarinnar.

Þá tók við móttaka í boði Félags sjúkraþjálfara þar sem Gunnlaugur Már Briem, varaformaður FS, óskaði kandídötunum til hamingju með daginn. Hann bauð þau velkomin í félagið og hvatti þau til dáða, ekki einungis í störfum sínum sem sjúkraþjálfarar, heldur einnig sem áhrifavalda í tengslum við stefnumörkun í heilbrigðismálum. Það var síðan sérstök ánægja að í móttökuna mætti einnig rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson. Hann sagðist stoltur af þvi hversu framarlega kennsla í sjúkraþjálfun við Háskóli Íslands hefur ávallt staðið, og bætti því við að ekki væru margir jafnöruggir um atvinnu við útskrift, enda þörf og eftirspurn eftir sjúkraþjálfun vaxandi í samfélaginu.