Greiðsluþátttökukerfi ríkisins er dýrara en gert var ráð fyrir

Rammasamningi sjúkraþjálfara verður mögulega sagt upp

21.2.2018

Rammasamningi sjúkraþjálfara verður mögulega sagt upp


Sl. mánudag, 19. febrúar, var formaður og samningnefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara kölluð á fund hjá Sjúkratryggingum  Íslands (SÍ). Efnið var að kynna fjárhagslega framúrkeyrslu SÍ vegna nýja greiðsluþátttökukerfisins og hvaða aðgerða SÍ hyggst grípa til í því skyni. Látið var að því liggja að einn kosturinn í stöðunni væri að segja upp rammasamningi við sjúkraþjálfara.

Síðdegis í gær, þriðjudag 20. febrúar, barst svo félaginu afrit af bréfi forstjóra SÍ til heilbrigðisráðherra, þar sem segir í niðurlagi: “Með hliðsjón af framansögðu og hafi heilbrigðisráðherra ekki athugasemdir við það munu SÍ segja upp rammasamningi við sjúkraþjálfa fyrir lok mánaðarins með sex mánaða fyrirvara”.

Fyrr í bréfinu er látið að því liggja að aðrir möguleikar séu í stöðunni svo staðan er óljós. Einnig kemur fram að meiningin sé að búið verði að gera nýjan samning áður en uppsagnarfresturinn rennur út þann 31. ágúst 2018.

Við erum nú að reyna að ná tali af heilbrigðisráðherra, sem getur haft áhrif á þessa ákvörðun og félagið væntir viðbragða frá ráðuneytinu áður en til uppsagnar kemur.

Við munum halda félagsmönnum upplýstum eftir bestu getu en svo vel vill til að aðalfundur félagsins verður haldinn annað kvöld, fimmtudag 22. feb kl 17.30 og munum við ræða þessa stöðu undir liðnum “önnur mál”.

 

Unnur Pétursdóttir, formaður FS
Kristján Hjálmar Ragnarsson, formaður samninganefndar