Heimsþing – kynningarfundur

WCPT 2019, 10-13 maí í Genf

26.9.2018

WCPT 2019, 10-13 maí í Genf

Í gær, þriðjudaginn 25. september, var haldinn kynningafundur er varðar heimsþing sjúkraþjálfara næsta vor, WCPT2019. Nokkrir fyrrum ráðstefnufarar héldu framsögu og lýstu sinni upplifun og reynslu, bæði yngri og eldri. Auk formanns voru þetta þær Sigrún Knútsdóttir, fv. formaður FÍSÞ, sem hefur farið á flest  heimsþing síðan 1988 og Þorgerður Sigurðardóttir, sem lýsti upplifun sinni af því að flytja fyrirlestur. Einnig sögðu þær Fríða Pálsdóttir og Steinunn S. Ólafardóttir frá upplifun sinni af því að fara á heimsþing sem nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar … og voru með langflottustu kynninguna. Við sem ólumst upp við myndvarpa þurfum greinilega að taka okkur á!

Fundurinn var haldinn í streymi, sem 30 manns horfðu á, og er upptakan aðgengileg í nú í nokkrar vikur, sjá:

https://livestream.com/accounts/21705093/events/8385898

Stofnaður hefur verið lokaður Facebook hópur þeirra sem eru að íhuga ferð á heimsþingið, WCPT2019 – Ísland og geta félagsmenn sótt um aðgang að þeim hóp. Þar munum við skiptast á upplýsingum, ræða ferðatilhögun, skipuleggja á hvaða hótelum við verðum o.fl. Þátttaka í hópnum er ekki skuldbinding þess efnis að fara, en þeir sem eru í hópnum en fara ekki, verða teknir úr hópnum þegar kemur að ráðstefnunni og verður hópurinn notaður sem samskiptamiðill þátttakenda á ráðstefnunni á meðan henni stendur.

Rétt er að geta þess að á þessari ráðstefnu, sem og öðrum, er mikil umræða á Twitter, svo það er um að gera að fylgjast með #wcpt2019 og fylgja @wcpt1951.

Bent er á að námskeið og skoðunarferðir í kringum ráðstefnuna fyllast fljótt, svo það er betra að skrá sig í slíkt um leið og fólk er ákveðið í að fara.

Við minnum á að heimsþing sjúkraþjálfara er styrkhæft hjá endurmenntunarsjóð BHM og starfsþróunarsetri.

 

Unnur P
Form. FS