LÝSA 2019 - Hof Akureyri
FS tekur þátt í rokkhátíð samtalsins í þriðja skipti
FS tekur þátt í rokkhátíð samtalsins í þriðja skipti
Stjórn FS hefur ákveðið að taka í þriðja skipti þátt í LÝSU – rokkhátíð samtalsins í Hofi á Akureyri, dagana 6. – 7. september nk. Á LÝSU hittist “þriðji” geirinn, þ.e. félagasamtök, hagsmunagæsluaðilar, stjórnmálafólk og almenningur , oft aðilar sem eru að fjalla um sömu málefni en frá mismunandi sjónarhornum.
Eins og áður tengjum við umræðuefnið okkar alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar, 8. sept. og þar sem þemað í ár eru krónískir verkir, var ákveðið að fjalla einmitt um það og nota tækifærið og kynna bakbæklinginn, sem FS gaf út síðastliðinn vetur.
Framlag FS verður því að þessu sinni á laugardeginum 7. sept kl 11.30 í sal sem nefnist Dynheimar. Erindið nefnist: “ Langvinnir verkir og bakið – staðreyndir og mýtur“
Hlín Bjarnadóttir og Fríða Brá Pálsdóttir, sjúkraþjálfarar á verkjasviði Reykjalundar fjalla um orsakir, eðli og áhrif langvinnra verkja með áherslu á bakverki og viðeigandi bjargráð til að viðhalda lífsgæðum.
Að öðru leyti verðum við Fríða ritari á svæðinu báða dagana, tökum þátt í allri umræðu um heilbrigðismál og velferðarþjónustu og tryggjum að rödd endurhæfingar og sjúkraþjálfunar heyrist.
Við hvetjum sjúkraþjálfara til að kynna sér dagskrána og mæta á svæðið til skrafs og ráðgerða.
Myndir eru frá LÝSU 2018.
Unnur P
Form. FS