Við gerum það sem gera þarf

Kjarasamningur launþega FS við ríkið rennur út þann 28. febrúar nk.

19.2.2015

Skilaboð sjúkraþjálfara til samninganefndar sinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið eru skýr

Skilaboð sjúkraþjálfara til samninganefndar sinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið eru skýr: „Við gerum það sem gera þarf til að knýja á um betri kjör". Samningur okkar við ríkið rennur út í lok mánaðarins. Viðræður eru hafnar en fara afar hægt af stað og ljóst að tilboð ríkisins er langt undir því sem ásættanlegt getur talist.

Haldnir hafa verið vinnustaðafundir undanfarna daga á SAk, Kristnesi, Landspítalanum Landakoti, Fossvogi og Hringbraut. Ljóst er að það er hugur í fólki og að sjúkraþjálfarar standa þétt að baki samninganefndar sinnar. Í vikunni var send út skoðanakönnun um það hvort og þá til hvaða aðgerða sjúkraþjálfarar vildu grípa til í því skyni að knýja á um betri kjör og eins hvort þeir væru tilbúnir einir og sér eða hvort þátttaka í aðgerðum væri bundin því að fleiri BHM félög færu saman. Niðurstöður verða ljósar á næstu dögum.Frá vinnustaðafundi FS á Landspítalanum - Hringbraut sl. föstudag.
Rétt er að taka fram, að eingöngu þeir sem teljast til opinberra starfsmanna eru beinir aðilar að þessum samningi og eru því einir atkvæðisbærir um aðgerðir og einnig þeir einu sem taka þátt í aðgerðum, ef til þess kemur.

Sjúkraþjálfarar sem starfa á stofnunum sem hafa svokallaða tengisamninga við samning ríkisins teljast ekki eiga beina aðild að samningnum og eru því ekki atkvæðisbærir. Þetta á við stofnanir sem eru í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónstu, t.d. Hrafnista og sjálfseignarstofnanir á borð við Reykjalund.

Ég hvet sjúkraþjálfara til að fylgjast vel með gangi mála á næstunni og mæta á alla þá fundi sem boðaðir verða, bæði af hálfu FS og BHM.

Fh kjaranefndar launþega FS
Unnur Pétursdóttir