Krafa í heimabanka vegna kjarabaráttu

Kjarabaráttan kemur okkur öllum við

26.3.2015

Kjarabaráttan kemur okkur öllum við

Á aðalfundi félagsins dags. 5. mars sl. var samþykkt sú tillaga stjórnar að veita stjórn heimild til að óska eftir fjárframlagi frá félagsmönnum til að standa straum af kostnaði vegna verkfalla þeirra sem fyrirséð eru hjá félagsmönnum okkar hjá ríkinu.

Frá því að tillagan var samþykkt hefur það breyst að í stað þess að sjúkraþjálfarar fari í verkfall, hefur verið tekin sú ákvörðun innan BHM að aðrar stéttir BHM, sem taldar eru að bíti fyrr, munu draga vagninn í verkfallsaðgerðum en með því skilyrði að hin félögin, þ.á.m. FS, veiti þeim fjárhagslegan stuðning svo þeirra fólk verði ekki fyrir tekjutapi.

Stjórn FS, ásamt stjórnum hinna BHM félaganna, samþykkti þetta fyrirkomulag.

Því er ljóst að í stað þess að leggja til fólk í verkföll, þurfum við að leggja fram fjármagn í baráttuna. Þessi barátta kemur okkur öllum við og því hefur stjórn FS tekið þá ákvörðun að virkja þessa heimild aðalfundar og óskar hér með eftir því að ALLIR félagsmenn greiði til kjarabaráttu félagsins 5000 kr næstu 3 mánaðarmót og sýni þannig stuðning við aðgerðinar í verki.

Því mun birtast í heimabönkum allra félagsmanna krafa upp á 5000 kr næstu þrenn mánaðarmót, en engin viðurlög eru við því að greiða ekki kröfuna.

 

Tillaga til aðalfundar Félags sjúkraþjálfara, dags. 5. mars 2015:

Aðalfundur Félags sjúkraþjálfara, dags. 5. mars 2015 veitir stjórn og kjaranefnd félagsins heimild til að óska eftir því við félagsmenn að þeir styðji við væntanlegar verkfallsaðgerðir launþega ríkisins með fjárframlögum.

Framkvæmdin yrði á þann hátt að sendar verða kröfur í heimabanka félagsmanna þann 1. apríl, 1. maí og 1. júní að upphæð 5.000 kr í hvert skipti.

Kjósi félagsmenn að greiða þær ekki eru engin viðurlög við því og munum ógreiddar kröfur hverfa úr heimabankanum 1. júlí 2015.

Stjórn og kjaranefnd launþega verði falið að verja fjármunum sem þannig safnast á þann hátt sem þeir telja koma félagsmönnum sínum í verkfalli best. Fari svo að ekki verði þörf á að nota skammtímasjóðinn, verði hann nýttur sem stofnframlag til hins nýja kjarabaráttusjóðs.

Stjórn FS