Verkfall sjúkraþjálfara hjá ríki, þann 9 apríl sl.

Fjölmennir samstöðufundir voru haldnir í Reykjavík og á Akureyri, auk þess sem félagar víðar á landinu hittust til skrafs og ráðgerða.

9.4.2015

Fjölmennir samstöðufundir voru haldnir í Reykjavík og á Akureyri, auk þess sem félagar víðar á landinu hittust til skrafs og ráðgerða.

Sjúkraþjálfarar hjá ríki, ásamt öðrum félagsmönnum BHM hjá ríki, gengu út af sínum vinnustöðum á hádegi í gær, 9. apríl, og fóru í ½ dags verkfall til að knýja á um kjarabætur.

Haldnir voru samstöðufundir í Reykjavík og á Akureyri, og víðar um land komu BHM-arar saman og þéttu raðirnar. Þátttakan í fundunum var framar björtustu vonum og stemningin frábær, þótt undirtónnin væri grafalvarlegur.

Staðan í kjaraviðræðum er döpur og það er eins og viðsemjendur sé í einhverri grárri forneskju þess hugsanagangs að best sé að fá „hvern-sem-er“ til að framkvæma störfin „einhvern veginn“, bara að það kosti sem minnst. Slíkur ekki-sparnaður kemur fljótt í bakið á þeim sem slíkt hugsar, en virðist ekki angra þá sem hugsa ekki lengra en fram að næstu kosningum. Menntun, þekking, hæfni, reynsla, fagmennska, skilvirkni og þar með sparnaður...þetta virðast vera einskis metin verðmæti hjá viðsemjendum okkar, því miður.

Framundan eru óljósir tímar þar sem feta þarf veginn af einurð og skynsemi og meta hvert skref sem stigið er. Við erum svo heppin að hafa algerlega frábært fólk í fararbroddi fyrir okkar félag. Það eru þær Arnbjörg Guðmundsdóttir (Reykjalundur), Birna Björk Þorbergsdóttir (SLF), G. Þóra Andrésdóttir (Lsh) og Helga Ágústsdóttir (Mörk). Þær, ásamt Unni formanni, sitja samningafundi BHM við ríkið og halda um taumana fyrir hönd sjúkraþjálfara.

Félagsmenn og sérstaklega vinnufélagar þeirra eru hvattir til að standa þétt við bakið á þeim í þessari baráttu. Ekki má gleyma trúnaðarmönnum og öðrum tengiliðum við vinnustaðina, þeir skipta miklu máli í að þjappa fólki saman og vera upplýsingarveita í báðar áttir, milli félagsmanna og félags/kjaranefndar.

Næstu dagar og vikur munu einkennast af skrítnu andrúmslofti, óvissu og óþægindum. Þannig er kjarabarátta, en við höldum ótrauð áfram. Þessi dagur er liðinn, sjúkraþjálfarar snúa aftur til vinnu en félagsmenn annarra BHM félaga halda verkfallsaðgerðum áfram. Munum samt að við erum öll í aðgerðum! Þeir sem eru í vinnu styðja við þá sem eru í verkfalli með ráð og dáð.

Höfum eftirfarandi í huga:

Gætum þess að ganga ekki í verk annarra sem eru í verkfalli.

Ef þið verðið vör við verkfallsbrot, byrjið á vinsamlegri ábendingu, oft er þetta hugsunarleysi. Sé um klárt og ákveðið verkfallsbrot að ræða, tilkynnið það til trúnaðarmanns viðkomandi stéttarfélags.

Látum þau sem eru í verkfalli finna stuðninginn og hvetjum þau til dáða.

Fylgjumst vel með fréttum, netpósti, heimasíðum og facebook-síðum, bæði BHM og Félags sjúkraþjálfara.

Setjum BHM merkið á profílana okkar á facebook, líkum og deilum, látum finna fyrir okkur á samfélagsmiðlunum.


Myndir af viðburðum dagsins má finna á https://www.facebook.com/felag.sjukrathjalfara

Áfram BHM og áfram við !


Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.