Aðalfundur WCPT 2015

Haldinn í Singapore, 28.apríl – 1.maí 2015

13.5.2015

Haldinn í Singapore, 28.apríl – 1.maí 2015

Nú er aðalfundi heimssambands sjúkraþjálfara (WCPT) í Singapore lokið. Fundurinn fór fram skv. venjulegum aðalfundarreglum, en hápunktur hans var óneitanlega kosning Emmu Stokes sem forseta WCPT til næstu fjögurra ára. Emma Stokes er okkur íslenskum sjúkraþjálfurum að góðu kunn eftir heimsókn hennar til okkar á Dag sjúkraþjálfunar í mars. Við fögnum kjöri hennar og ég er sannfærð um að heimssambandið verður þar í góðum höndum.

Aðrar fréttir af fundinum má sjá á heimasíðu WCPT, www.wcpt.org

Mynd: Fráfarandi forseti WCPT, Maylin Moffat setti aðalfundinn.

Fyrir mig sem formann var þessi fundur talsverð upplifun. Sumt fyrirséð, en það sem kannski stendur helst upp úr eru þau tengsl sem myndast milli fólks á alþjóðlegum fundi sem þessum, þar sem maður situr á milli Ungverjalands og Indonesíu og fyrir aftan mann sitja Ekvatorbúar, Egyptar og Eistar.

Einnig var afar fróðlegt að hitta kollega frá ýmsum löndum, sem maður hefur annað hvort bara lesið um í ævintýrasögum (Kongo, Togo, Macau, Fiji), en einnig sjúkraþjálfara frá svæðum sem hafa verið í fréttum vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga (Afganistan, Ruanda, Nepal).

Það sem mér fannst hins vegar skondið var að komast að því að ég var að sumra mati í hópi "framandi" landanna og nokkrir vildu fá mynd af sér með mér af því að ég væri frá þessari skrítnu eldfjallaeyju í norðri.

Það var ekki svo að allir væru sammála um allt. Sérstaklega fór mikið púður í að ræða fjármál WCPT sem og framtíðarstefnu, s.s aðildarmál og vægi atkvæða. Umræðupunkturinn um að fjölmenn félög fengju að greiða fleiri atkvæði, í hlutfalli við fjölda félagsmanna var hins vegar kolfelldur og reglan um eitt atkvæði fyrir hvert félag óháð stærð var klárlega vilji aðalfundar.

Næsti aðalfundur verðu haldinn að fjórum árum liðnum, en ekki er búið að ákveða staðsetningu hans.


Unnur Pétursdóttir
Formaður FS