Staða samningaviðræðna við ríkið

Staða viðræðna BHM, og þar með FS, við ríki, dags. 15. maí 2015

15.5.2015

Staða viðræðna BHM, og þar með FS, við ríki, dags. 15. maí 2015

Eins og flestum ætti að vera ljóst af fréttum vikunnar komst loksins hreyfing á kjaraviðræðurnar í upphafi vikunnar. Í fyrsta skipti kom samninganefnd ríkisins (SNR) ekki tómhent að samningaborðinu, heldur lagði fram tillögur sem aðildarfélög BHM mátu svo að væru þess virði að vinna áfram með.

Mánudagskvöld og þriðjudagsmorgunn fóru því í yfirlegu samninganefndar BHM og var farið á næsta samningafund síðdegis á þriðjudag með tilllögur BHM að ítarlegri útfærslum kerfisbreytinga, en einnig fullt af spurningum varðandi tillögur SNR sem samninganefnd BHM vildi fá nánari útskýringar á. SNR er nú að vinna þetta áfram sín megin, en samninganefnd BHM hefur einnig haldið áfram að móta tillögurnar svo þær mæti þeim kröfum sem aðildarfélög BHM hafa sett fram. Samninganefnd BHM hélt vinnufund á uppstigningardag og næsti samningafundur BHM og SNR er í dag, föstudag kl 10.

Rétt er að útskýra, að samninganefnd BHM samanstendur af formönnum og eftir atvikum formönnum kjaranefnda aðildarfélaga BHM, ca 25 manns. Þessi stóra nefnd er öllu jöfnu með viðveru hjá ríkissáttasemjara á meðan viðræðunefnd BHM (formaður samninganefndar BHM, Páll Halldórsson, lögfræðingur BHM, Erna Guðmundsdóttir, og Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir hagfræðingur) fara inn og út af fundum með SNR. Þau bera allt það sem kemur frá SNR undir samninganefndina og fara svo aftur inn til SNR með það sem stóra nefndin ákveður.

Gríðarlega mikilvægt er að við sem ekki erum í beinum verkfallsaðgerðum, styðjum við bakið á þeim sem standa verkfallsvaktina með öllum ráðum, á vinnustöðunum, í fjölmiðlum, innan fjölskyldu- og vinatengsla, á samfélagsmiðlum (líka við og deila...). Látum þau heyra að við stöndum með þeim 100%.

Og þið sjúkraþjálfarar sem ruðst hafa fram á ritvöllinn í fjölmiðlum, Gunnlaugur Jónasson, Kári Árnason og Jóhanna Marín Jónsdóttir, vel gert !!!

Fh. kjaranefndar FS
Unnur Pétursdóttir
Formaður FS