Prófessor í sjúkraþjálfun við HÍ

Kristín Briem hefur verið skipuð fyrsti prófessorinn í sjúkraþjálfun við HÍ

1.9.2015

Kristín Briem hefur verið skipuð fyrsti prófessorinn í sjúkraþjálfun við HÍ

Úr  tilkynningu á vef HÍ:

„Ég er mjög ánægð með nýju stöðuna, því framgangur endurspeglar ákveðna vinnu og velgengni á sviði rannsókna og kennslu,“ segir Kristín Briem sem fékk framgang í stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands þann 1. júlí síðastliðinn. Kristín er fyrst til að gegna stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands en námsbraut í sjúkraþjálfun var stofnuð við Læknadeild haustið 1976.

Kristín segir að hlutverk sjúkraþjálfara sé í sífelldri þróun sem helst í hendur við aðra samfélagsþróun. „Segja má að markmið sjúkraþjálfara, óháð starfsvettvangi, sé að heilsuefling, forvarnir, greining og meðferð leiði til sem bestrar færni skjólstæðings til að hreyfa og athafna sig. Slíkt hefur jákvæð áhrif á möguleika viðkomandi til virkrar þátttöku í samfélaginu og á lífsgæði.“ Aðspurð hvort að hlutverk sjúkraþjálfara eigi eftir að breytast í framtíðinni svarar hún: „Það sem virðist aðkallandi í dag er að efla starfsvettvang sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar, þ.e. að veita t.d. beinan aðgang að þjónustu sjúkraþjálfara þegar fólk leitar til heilsugæslu

Kristín hefur starfað sem sjúkraþjálfari bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Hún lauk námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í bæklunarsjúkraþjálfun frá St. Augustine háskólanum í Bandaríkjunum árið 2002. Síðar lauk hún doktorsnámi í lífaflfræði og hreyfivísindum við Delaware háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði samhliða á kennsluklínik skólans sem sjúkraþjálfari og klíniskur kennari. Kristín hóf störf við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur tekið virkan þátt í starfi námsbrautar í sjúkraþjálfun innan skólans. Hún hefur jafnframt birt fjölda vísindagreina í innlend og erlend fræðitímarit.

Nánar á: http://www.hi.is/frettir/fyrsti_professor_i_sjukrathjalfun_vid_haskola_islands

Félag sjúkraþjálfara óskar Kristínu Briem sjúkraþjálfara til hamingju með þennan mikla áfanga, sem er ekki bara persónulegur heldur gríðarlega mikilvægur fyrir fagið allt.