Fundir formanns með félagsmönnum í trúnaðarstöðum

Formaður fundaði með nefndum, faghópum og undirfélögum

5.11.2015

Formaður fundaði með nefndum, faghópum og undirfélögum

Nýlega hélt formaður nokkra fundi með nefndum félagsins, forsvarsmönnum faghópa og stjórnum undirfélaga félagsins. Fundarefni voru tilgangur nefnda/faghópa/undirfélaga, starfsreglur, helstu verkefni, samskipti innbyrðis og við stjórn FS og margt fleira sem bar á góma.

Helstu verkefni nefnda má nefna að fagnefnd  er nú að störfum við endurskoðun mælitækjabankans, sem verður endurgerður og settur upp á nýju heimasíðunni í endurnýjaðri mynd. Fræðslunefnd er að fara af stað með þá nýjung að bjóða upp á stutt kvöldnámskeið og siðanefnd endurskoðar þagnarheit sjúkraþjálfara með tilliti til samfélagsmiðla og þeirra breytinga sem eru að verða í netvæddu umhverfi. Ritnefnd var að leggja lokahönd á seinna tölublað ársins og er það komið í prentun og heimasíðunefnd er önnum kafin við að sníða vankanta af heimasíðunni.

Mynd: Forsvarsmenn faghópa félagsins ásamt formanni FS.

Faghóparnir eru misvirkir. Barnasjúkraþjálfarar eru afar duglegir og hittast 2-3 sinnum á önn og skiptast á að hittast á vinnustöðum sínum og halda fræðsluerindi. Aðrir hópar ræddu mögulegt samstarf, s.s. hjarta- og lungnahóparnir. Íþróttasjúkraþjálfarar ræddu um að nýstofnaður hópurinn væri bæði fag- og hagsmunahópur og er í mótun. Faghópur um meðferð krabbameinsgreindra og sogæðameðferð er í mótun og og heldur sinn fyrsta fræðslufund í dag, 5. nóv. kl 15 (sjá auglýsingu á heimasíðunni).

Undirfélög FS eru þrjú, FSÖ, FSSH og MT félagið. Sem formleg félög lúta þau öðru og stífara formi, eru með lög, starfsreglur og stjórn, innheimta væg félagsgjöld en greiða líka félagsgjöld til samsvarandi undirfélaga WCPT og eru í talsverðum erlendum samskiptum við kollega á samsvarandi starfssviðum.

Þetta voru afar gagnlegir fundir, bæði fyrir formann og félagsmennina, línur lagðar og skýrðar og fastsett að slíkir fundir yrðu á dagskrá a.m.k einu sinn á hverju hausti.

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS