Litið um öxl – pistill formanns

Hvað var brasað á árinu 2015?

7.1.2016

Hvað var brasað á árinu 2015?

Árið hófst með opnun nýrrar heimasíðu, www.physio.is  og nýjársfagnaði á Kex-hostel þann 9. janúar. Stuttu síðar var haldið umræðusíðdegi um nýjungar í sjúkraþjálfun. Faghópar í íþróttasjúkraþjálfun og endurhæfingu krabbameinsgreindra voru stofnaðir og haldið var markaðsnámskeið að hausti.

Formaður og eftir atvikum stjórn eða einstakir stjórnarmeðlimir funduðu með fulltrúum námsbrautar, nemum í sjúkraþjálfun, landlækni og formanni Læknafélagsins. Stjórn og kjaranefnd fundaði að hausti, sem og stjórn með nefndum félagsins, undirfélögum og faghópum. Vísindaferðir voru farnar í Heilsuborg og Æfingastöðina Háaleitisbraut en hápunktur ársins var án efa 75 ára afmælishátíð félagsins á Degi sjúkraþjálfunar, sem haldinn var í Hörpunni þann 6 mars.

Mynd: Fyrrverandi og núverandi formenn félagsins á Degi sjúkraþjálfunar 2015; Héðinn Jónsson, Auður Ólafsdóttir, Unnur Pétursdóttir, Sigrún Knútsdóttir.

Formaður og varaformaður fóru á fund norrænna kollega í Kaupmannahöfn í mars og formaður fór á aðalfund og heimþing WCPT í Singapore í apríl/maí. Frá Íslandi fóru 8 sjúkraþjálfarar og 3 viðhengi og er óhætt að segja að ferðin hafi verið öllum ógleymanlegt ævintýri.

Segja má þó að kjaramálin hafi tekið sviðið allt árið. Byrjað var á samningum við Sjúkratyggingar Íslands varðandi skiptingu svokallaðs SÞ-sjóðs, sem fjármagnar endurgerð SÞ-kerfisins, sem nú er í fullum gangi. Samkomlag þar að lútandi var undirritað þann 11. mars 2015.

Fyrsti fundur FS með samninganefnd ríkisins var haldinn í febrúar og lauk þeirri vegferð ekki fyrr en með lagasetningu Alþingis í júní og úrskurði Gerðardóms þann 15. ágúst.  Á tímabilinu funduðu formaður og kjaranefnd launþega stíft og mikil vinna var lögð í málið. Formaður hélt marga vinnustaðafundi með þeim sem aðild eiga að þessum samningi, á öllum starfsstöðvum Lsh nokkrum sinnum, auk þess að funda með sjúkraþjálfurum á SAk (Sjúkrahúsi Akureyrar) og HSA (Heilbrigðisstofnun Austurlands) á Egilsstöðum.

Samið var við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) ásamt með nokkrum öðrum aðildarfélögum BHM, en það voru fulltrúar FS sem leiddu þær viðræður þar sem FS er með langflesta félagsmenn samningsins.  Samið var við Reykjavíkurborg, einnig með fleiri aðildarfélögum BHM, en þar voru það önnur félög sem leiddu viðræður, enda starfa sárafárir félagmenn okkar eftir þessum samningi.  Þannig reynum við innan BHM að dreifa álagi vegna samningagerðar.

Nokkrir fundir vegna menntunarákvæðis í samningi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara voru haldnir með SÍ á haustmánuðum og munu línur skýrast varðandi það ákvæði nú á næstunni.

Þegar ég lít um öxl sé ég að býsna margt hefur verið gert á árinu. Starfsemi félagsins er nú komin í góðan farveg eftir talsverða vinnu við að keyra starfsemi þriggja félaga saman í eina heild. Við getum horft fram á veginn með góðan grunn í farteskinu sem er öll starfsemi félagsins, bæði á faglegum og kjaralegum nótum. Þetta væri ekki hægt nema vegna þess stóra hóps sjúkraþjálfara sem leggja fram vinnu sína í þágu félagsins og fagsins.

Fyrst ber að telja stjórn félagsins, sem er hefur með gríðarlegri eljusemi haldið starfseminni gangandi og rutt brautina í margháttuðum málum. Kjaranefnd launþega hefur staðið í ströngu allt árið og kjaranefnd sjálfstætt starfandi tekið spretti varðandi málefni samnings okkar við SÍ. Þá eru ótaldir allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem starfa fyrir félagið, s.s forsvarsmenn landshlutadeilda, þeir sem sitja í nefndum, stjórnum undirfélaga og/eða veita faghópum forstöðu. Þetta eru fjölmargir félagsmenn og eru öllum hér með færðar mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag. Án ykkar væri ekkert félag!

Mynd: Stjórn og kjaranefnd félagsins.

Hvað nýja árið ber í skauti sér er óljóst, en víst er að það eina sem í boði er, er að sækja fram, efla faglega þekkingu, sækja sér nýja þekkingu og muna að skrá og láta vita um þau góðu verk sem unnin eru af sjúkraþjálfurum um allt land.

Með góðri kveðju inn í nýtt ár 2016

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS.