IMA-fundur á Íslandi

Intelligent Motion Analysis – nýsköpunarverkefni með þátttöku Félags sjúkraþjálfara

26.5.2016

Intelligent Motion Analysis – nýsköpunarverkefni með þátttöku Félags sjúkraþjálfara

Í gær, fimmtudaginn 26. maí, var haldinn lokafundur IMA-verkefnisins svokallaða í Reykjavík. IMA stendur fyrir „Intelligent Motion Analysis“ og gengur út á að þróa næstu kynslóð KINE-tækjanna. Verkefnið er leitt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en aðrir aðilar sem koma að því eru Félag sjúkraþjálfara, Sjúkraþjálfun Íslands, KISO (sem er stofnað upp úr gamla KINE fyrirtækinu), hollenska sjúkraþjálfarafélagið, spænska sjúkraþjálfarafélagið, Maritim – sjúkraþjálfunarstofa í Valencia á Spáni, rannsóknarstofa í hreyfivísindum í Valencia og hugbúnaðarfyrirtæki á Bretlandi. Verkefnið er unnið fyrir styrk frá Evrópusambandinu og ber félagið engan kostnað af því.

Þetta var lokafundur verkefnishópsins, en nú er búið að hanna „prototypu“ af tækinu og er hún komin í hendur sjúkraþjálfarastofanna til prufu. Frekari þróun þar til að tækið kemur á markað mun þó taka einhvern tíma.

Formaður FS, Unnur Pétursdóttir, hefur setið í verkefnishópnum fyrir hönd félagsins og gefið stjórn FS reglulega upplýsingar um framgang mála. Auk þess hefur hún kynnt verkefnið á mörgun vinnustaðafundum og viðburðum félagsins og framvinda verkefnisins hefur verið kynnt á veggspjöldum á Degi sjúkraþjálfunar þau þrjú ár sem verkefnið hefur staðið yfir. Fyrir hönd Sjúkraþjálfunar Íslands sat Ólafur Þór Guðbjörnsson fundinn.

Það er fagnaðarefni að nú sér fyrir endann á þessum fyrsta hluta verkefnisins. Eins og fyrr segir eru þó ýmsar prófanir eftir, en það verður spennandi að fylgjast með þróuninni hjá KISO og viðtökum hins alþjóðlega sjúkraþjálfara-markaðar þegar tækið kemur á markaðinn í fyllingu tímans.

Við hvetjum sjúkraþjálfara til að fylgjast með á heimasíðu verkefnisins www.imatec.is 

Myndin er af verkefnishópnum og þar eru sjúkraþjálfarar og tæknimenn frá Spáni, ásamt varaformanni spænska sjúkraþjálfarafélagsins, tveir fulltrúar hollenska sjúkraþjálfarafélagsins, Ólafur Þór frá Sjúkraþjálfun Íslands, Unnur formaður FS, Páll Árnason frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem er verkefnisstjórinn og verkfræðingar frá Nýsköpunarmiðstöð og KISO.

Fyrri fréttir um IMA-verkefnið: 

IMA fundur Madrid – apríl 2015
http://www.physio.is/um-felagid/utgafa/frettir/nr/187
Rétt er að taka fram að í þessum pistli er talað um að síðast fundurinn verði í september, en honum var hins vegar frestað um rúmt hálft ár og var eins og fyrr segir haldinn nú í gær í Reykjavík.

IMA fundur Hollandi – nóv 2014
http://www.physio.is/um-felagid/utgafa/frettir/Hollandsferd-formanns