Nýjárspistill formanns 2018

Fortíð og framtíð

4.1.2018

Fortíð og framtíð

20170510_073952Við áramót staldrar maður við og veltir fyrir sér fortíð og framtíð. Sé litið í baksýnisspegil til ársins 2017 standa nokkur atriði upp úr. Dagur sjúkraþjálfunar í mars, fundur norrænna formanna í Mývatnssveitinni í maí og algerlega ógleymanleg ferð á heimsþing sjúkraþjálfara í S-Afríku í júlí. En það eru ekki eingöngu einstakir atburðir sem setja mark sitt á árið heldur þessi stöðugu samskipti og samvinna við kollegana, aðrar fagstéttir, BHM, heilbrigðisyfirvöld  sem og samskipti við viðsemjendur bæði hjá ríki, stofnunum og Sjúkratryggingum sem fylla dagskrána og skapa dagslegt amstur.  Þau verkefni gera það að verkum að starf mitt sem formaður er eins og þvottakarfan mín. Ég tíni endalaust upp úr körfunni hin ýmsu verkefni og þegar ég tel mig vera 20171019_125328farna að sjá til botns þá, úps, karfan orðin full aftur og verkefnastaðan er aftur yfirdrifin. Það er nákvæmlega það sem gerir starf formanns svo afar skemmtilegt, fjölbreytt, erilsamt og á köflum snúið en alltaf áhugavert og ég tel mig hafa enn margt fram að færa sem gagnast megi félaginu. Það er ástæða þess að ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram til formennsku í félaginu á næsta aðalfundi, sem haldinn verður þann 22. febrúar 2018.

Þegar rýnt er í framtíðina þá eru spennandi tímar framundan. Á ráðstefnu BHM í nóvember sl. um 4. Iðnbyltinguna kom áberandi fram að ein af stærstu breytingum vestrænna þjóðfélaga verður breytingin í aldurssamsetningu þjóðanna. Eldri borgarar verða gríðarlega stór hluti íbúa og grundvallaratriði verður að sjá til þess að þeir verði sem sprækastir og sem mest sjálfbjarga eins lengi og auðið er. Þar mun ein heilbrigðisstétt hafa lykilstöðu, nefnilega sjúkraþjálfarar. Við sjúkraþjálfarar erum samkvæmt þessu lykilheilbrigðisstétt framtíðarinnar. Við höfum þekkingu og kunnáttu til þeirra forvarna, heilsueflingar og meðferðar sem verður ekkert nema mjög svo vaxandi eftirspurn eftir á næstu árum og áratugum.

07Þá vaknar spurningin, hvernig ætlum við að mæta þessum áskorunum og eftirspurn?  Við munum, ef að líkum lætur, ekki vera nógu mörg til að anna öllu því sem við gerum í dag á sama hátt. Hvernig getum við gert betur? Hvernig getum við sinnt fleirum en með sömu/betri gæðum? Hvernig getum við skipulagt okkar starfsemi svo hún þjóni stærri hópi eldri landsmanna? Þurfum við að horfa inn á við og skoða eigin vinnubrögð og kanna hvort hægt sé að gera hlutina öðruvísi? Verða sjúkraþjálfarar framtíðarinnar meiri stjórnendur, greinendur og stefnumarkandi aðilar en eftirlátum við ef til vill framkvæmd einstakra þátta til sérhæfðra aðstoðarmanna? Mun hér vaxa upp stétt sambærileg við „PT assistants“ í Bandaríkjunum? Það eru margir fletir á hverri spurningu, engin einföld svör og hvert svar vekur fleiri spurningar. En það er nauðsynlegt að við spyrjum okkur þessara spurninga og förum nú þegar að velta fyrir okkur framtíðinni, því framtíðin er núna.

 

Eftirspurn eftir sjúkraþjálfurum er  gríðarleg og ég hef aldrei áður fengið jafn margar fyrirspurnir og óskir um aðstoð við að finna sjúkraþjálfara í mismunandi störf alls staðar á landinu. Ný starfssvið eru að líta dagsins ljós og í takti við fyrrnefnt er Reykjavíkurborg nú að setja á stofn nýtt úrræði þar sem heilsuefling aldraðra verður í fyrirrúmi. Þar er óskað eftir reyndum sjúkraþjálfara til að koma þeirri starfsemi af stað, en enginn hefur sótt um þegar þetta er ritað. O-SENIOR-CITIZENS-EXERCISE-facebookÞað er grafalvarlegt ef ekki fæst sjúkraþjálfari í teymið, því þá missum við af því að setja mark sjúkraþjálfunar á starfsemina og aðrar fagstéttir fylla skarðið. Því skora ég á reynda sjúkraþjálfara að skoða það að skipta um starfsvettvang og taka þátt í að byggja upp eitthvað nýtt og spennandi hvort sem það er þetta starf eða önnur sem á eftir munu koma.

 

Annað framtíðaráhyggjuefni sem fram kom á ráðstefnu BHM er andlegt heilbrigði landsmanna. Þar er verk að vinna og sjúkraþjálfarar geta svo sannarlega komið þar að málum. Því hvet ég alla kollega að sækja alþjóðlegu ráðstefnuna ICPPMH 2018, sem haldin verður í Reykjavík í apríl, https://icelandtravel.artegis.com/event/ICPPMH-Conference2018 . Titill ráðstefnunnar er: „Mental health is all physio‘s business“.

 

Að þessu sögðu óska ég félagsmönnum gleðilegs árs og þakka samfylgdina á árinu 2017.

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS