Nýr samningur milli Félags sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands bætir aðgengi að þjónustu og eflir gæðastarf

Félag sjúkraþjálfara og Sjúkratryggingar Íslands hafa undirritað nýjan samning

21.5.2024

Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings frá janúar 2020

Nýr samningur milli Félags sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands mun bæta aðgengi og hag þeirra sem þurfa á sjúkraþjálfun að halda. Kostnaður sjúklinga lækkar samhliða því að aukagjöld falla niður og Sjúkratryggingar hefja að greiða eftir uppfærðri gjaldskrá. Þar með lýkur tímabili samningaleysis sem varað hefur frá janúar 2020.

Undirritun samningsins milli Félags sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga fór fram í dag (21.5.2024) og var samningurinn samhliða staðfestur af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Nýr samningur mun taka að fullu gildi þann 1. október 2024 og gilda til 5 ára, í kjölfar kynningar og með fyrirvara um atkvæðagreiðslum félagsfólks á næstu dögum. Til að mæta þörfum skjólstæðinga mun núverandi gjaldskrá vera uppfærð 1. júní næstkomandi og samhliða munu aukagjöld fyrir þjónustu sjúkraþjálfara falla niður frá þeim tíma.

Í nýjum samningi er lögð aukin áhersla á gæðastarf og upplýsingaöflun til að styðja við forgangsröðun og mótun þjónustunnar. Einnig er horft til þess að efla möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Áhersla verður á þróunarverkefni tengd samningnum er geta m.a. snúið að þarfagreiningum sem og nýsköpunarverkefnum.

Bættur hagur þeirra sem mesta þjónustu þurfa

Ljóst er að umræddur samningur mun hafa jákvæð áhrif á stöðu fjölmargra Íslendinga, en árið 2023 sóttu um 15% þjóðarinnar þjónustu sjálfsætt starfandi sjúkraþjálfara eða 62.067 einstaklingar. Þar á meðal er mikill fjöldi öryrkja og ellilífeyrisþega sem og börn sem þurfa stöðuga þjónustu vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum. Aukin áhersla hefur verið lögð á endurhæfingu síðastliðin ár af hálfu stjórnvalda. Fyrirséð er að sú þörf muni aukast enn frekar með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, kröfum til lífsgæða og virkni, samhliða áherslum um að einstaklingar geti búið sem lengst í sjálfstæðri búsetu í stað þess að þurfa dýrari úrræði.

Fyrirsjáanleiki og hvati til framþróunar

Við gerð langtímasamnings gefst þjónustuveitendum tækifæri til að styrkja og skipuleggja störf sín til komandi ára. Fyrirsjáanleiki í starfsumhverfi styður við framþróun og áætlanagerð sem mun ótvírætt styðja enn frekar við gæðastarf og þróun þjónustunnar með hag skjólstæðinga í fyrirrúmi. Mun það einnig skapa frekari stöðugleika í umgjörð og starfsumhverfi sjúkraþjálfara til komandi ára.

Félag sjúkraþjálfara

21. maí 2024