Pistill formanns - apríl 2018

ICPPMH2018 - Norrænn fundur - aðalfundur ER-WCPT

3.5.2018

ICPPMH2018 - Norrænn fundur - aðalfundur ER-WCPT


Apríl mánuður var undirlagður undir erlent samstarf. Dagana 10. – 12. Apríl var Félag sjúkraþjálfara og undirfélag þess, FSSH, gestgjafi ICPPMH2018 ráðstefnunar í Reykjavík.  Í mörg horn var að líta þessa daga til að tryggja að allt gengi snuðrulaust fyrir sig. Um 200 þátttakendur frá 24 löndum og 6 heimsálfum sóttu ráðstefnuna, sem haldin er annað hvert ár en í fyrsta skipti hér á Íslandi. Yfir 30 íslenskir sjúkraþjálfarar sóttu ráðstefnuna en einnig nokkrir iðjuþjálfar, sálfræðingar og hjúkrunarfræðingar, sem er gleðiefni (ICPPMH stendur fyrir International conference in Physiotherapy and Psychiatry in Mental Health).

Skömmu síðar héldum við Helga, gjaldkeri félagsins til Noregs þar sem haldinn var árlegur Norrænn fundur formanna sjúkraþjálfara. Að þessu sinni var hann haldinn í stórfenglegu umhverfi innst í einum af þessum löngu og mjóu fjörðum vesturstrandarinnar.

Umræðuefni fyrri dagsins voru m.a. aðgerðir danskra sjúkraþjálfara og staðan þar, sem var grafalvarleg og skrifuðu allir formenn undir stuðningsyfirlýsingu til handa danska félaginu.
Einnig var rætt um sjúkraþjálfun barna, almenna hreyfingu þeirra og hlutverk sjúkraþjálfara í skólakerfinu, en þar eru hin Norðurlöndin komin langt á undan okkur. Önnur málefni bar einnig á góma, s.s. sjúkraþjálfun í heilsugæslu og sjúkraþjálfun og geðheilbrigði í kjölfar ráðstefnunnar okkar í síðustu viku ICPPMH2018.

Seinni dagur Norræna formannafundarins fór alfarið í það að fara yfir öll gögn fyrir aðalfund Evrópudeildar WCPT, skoða hvaða gögn við viljum gera athugasemdir við og hvert okkar gerir það. Samvinna Norðurlandanna hefur oft vakið athygli annarra landa og við öfunduð af því samstarfi og vinskap sem er okkar á milli. 
Deginum lauk á stuttri skoðunarferð inn í þröngan dal í dásamlegu veðri áður en flogið var til Oslo þar sem hópurinn leystist upp um skamma stund, Helga gjaldkeri fór heim til Íslands en mörg okkar hittumst aftur nokkrum dögum síðar á aðalfundi ER-WCPT í Dublin.

Í aðdraganda aðalfundar Evrópudeildar WCPT í Dublin var haldin vinnustofa. Umræðurefnið var hvernig við kynnum og tölum fyrir sjúkraþjálfun sem mikilvægum þætti í heilbrigðisþjónustu og forvörnum, bæði hjá börnum og fullorðnum. Ég lagði orð í belg sem og margir aðrir, en fjörugar umræður urðu um málefnið, enda misjafnar venjur og siðir í mörgum misjöfnum heilbrigðiskerfum í Evrópu.

Aðalfundur ER-WCPT hófst svo daginn eftir. Phil Gray, fyrrv. formaður breska félagsins var fundarstjóri. Farið var yfir skýrslur stjórnar og vinnuhópa (menntun, fagleg málefni og vinnumarkaðsmál). Stefna ER-WCPT var rædd, sem og lágmarkskröfur sem gera á til sjúkraþjálfara í Evrópu, kliniskar leiðbeiningar, rannsóknir í sjúkraþjálfun, gagnabankar, framhaldsmenntun og sérfræðiviðurkenningar. Deginum lauk með ræðu Emmu Stokes, forseta WCPT, sem sat fundinn sem sérstakur gestur.

Stærsti hluti annars dags aðalfundar Evrópudeildar sjúkraþjálfara fór í vinnustofur þar sem farið var yfir þá pappíra sem komu frá vinnugrúppum Evrópudeildarinnar, rýnt í skýrslurnar og álitamál útkljáð, þannig að hægt væri að innleiða skýrslurnar sem stefnu Evrópudeildarinnar. Kosið var til stjórnar ER-WCPT, en ný stjórn er þannig skipuð:

Chair: Esther-Mary D'Arcy (Írland)
1st Vice Chair: Roland Craps (Belgía)
2nd Vice Chair: Carmen Suarez (Spánn)
Regional Board member of WCPT: John Xerri de Carro (Malta)
Fyrsti varamaður: Unnur Pétursdóttir (Ísland)
Annar varamaður: Zbigniew Śliwiński (Pólland)

Deginum lauk svo með Gala-dinner í Trinity College þar sem Sigrún Knútsdóttir, fv formaður FÍSÞ og aðili að fyrstu stjórn ER-WCPT var heiðruð ásamt hópi brautryðjendanna, sem sameinuðu tvö félög Evrópusjúkraþjálfara í eina öfluga Evrópudeild undir WCPT árið 1998.

DbuLYdgXkAAnCeWÍ síðasta degi smelltu norrænir þátttakendur í eina mynd í kaffipásu. Við söknuðum danska formannsins sem ekki gat komið sökum átaka á danska vinnumarkaðnum, en engu að síður voru tveir aðilar frá danska félaginu á svæðinu. Farið var yfir fjármálin, sem reyndust í góðu lagi og var Ísland, ásamt Luxemburg, kosið sem skoðunarmenn reikninga fyrir árin 2019-2020. Síðustu málefni fundarins voru smávægilegar lagabreytingar en upp úr hádegi fóru þátttakendur að tínast hver til síns heima.

Þessir fundir eru alltaf ánægjuefni, en engu að síður mikil vinna og maður er vel “dreneraður” eftir þá, svo það var gott að komast heim eftir langa ferð.

 

Kveðja,
Unnur P formaður FS.