Reykjavíkurmaraþon 2017 – fræðslubás FS

Sérþekking sjúkraþjálfara á sviði íþrótta er afar dýrmæt en almenningur verður að vita af henni. Stjórn FS skorar á félagsmenn að skrá sig til að taka að sér 1-2 klst í fræðslubás FS

22.5.2017

Sérþekking sjúkraþjálfara á sviði íþrótta er afar dýrmæt en almenningur verður að vita af henni. Stjórn FS skorar á félagsmenn að skrá sig til að taka að sér 1-2 klst í fræðslubás FS

Á stefnumótunardegi félagsins árið 2014 kom fram skýr ósk félagsmanna um að félagið sinni markaðssetningu og kynningu á sjúkraþjálfun og því sem við sem fagstétt höfum upp á að bjóða.

Eitt af því sem félagið hefur gert í þeim tilgangi er að bjóða félagsmönnum að vera með kynningu á sér og sinni starfsemi varðandi íþróttasjúkraþjálfun í kynningar- og fræðslubás félagsins á skráningarsvæði Reykjavíkurmaraþons undanfarin ár. Allur kostnaður er greiddur af félaginu, svo það eina sem félagsmenn þurfa að gera er að skrá sig til að vera í básnum ákveðinn tíma og veita gestum og gangandi fræðslu, upplýsingar og ráðgjöf í takt við sína sérþekkingu.

Þetta hefur verið afar vel heppnað og bæði þeir sjúkraþjálfarar sem tekið hafa þátt, sem og þeir sem notið hafa ráðgjafar, hafa verið mjög sáttir með fyrirkomulagið.

Það sem hins vegar hefur vakið undrun stjórnar er hversu fáir félagsmenn nýta sér þennan vettvang til að kynna sig og sitt starf.

Það er fullt af fólki með misgóða þekkingu sem er tilbúið til að æða inn á þennan markað með alls kyns tilboð. Ætlum við að láta þeim það eftir? Sérþekking sjúkraþjálfara á þessu sviði er afar dýrmæt en almenningur, íþróttafólk, hlauparar, foreldrar,  verður að vita af henni. Það er ljóst að ekkert fæst án fyrirhafnar og hér er gráupplagt tækifæri til markaðssetningar á sérþekkingu sjúkraþjálfara.

Hafir þú áhuga á að vera með fyrirlestur er það líka í boði!

Stjórn FS skorar á félagsmenn að taka nú betur við sér og drífa sig í að skrá sig til að taka að sér 1-2 klst í fræðslubás FS sem hér segir:

Fimmtudagur 17. ágúst kl 15 – 21
Föstudagur 18. ágúst kl 14 – 20

Veigur Sveinsson, varaformaður FS tekur við skráningum á netfangið: veigur@aflid.is

Heimasíða sýningarinnar: https://www.fitrunexpo.is/