Sjúkraþjálfarar hafa víða gjörbylt starfsemi sinni á örskömmum tíma – verkefni félagsins hafa einnig markast af faraldrinum

Á erfiðum tímum kemur í ljós úr hverju fólk er gert og það er ljóst að sjúkraþjálfarar hafa í þessum fordæmalausu aðstæðum tekið stöðu sína af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi

3.4.2020

Pistill formanns föstudaginn 3. apríl 2020


Verkefni félagsins undanfarnar vikur hafa einkennst af viðbrögðum við Covid-19 faraldrinum, sem hefur gjörbreytt öllu starfsumhverfi sjúkraþjálfara á örskömmum tíma.

Fyrsta verkið var að huga að sóttvörnum, hvaða starfsemi gæti farið fram og hvernig og kann félagið sjúkraþjálfurum í Styrk sjúkraþjálfun miklar þakkir fyrir þeirra framlag. Næsta verkefni var að þrýsta á BHM og stjórnvöld að huga að réttindum sjálfstætt starfandi í fordæmalausum aðstæðum, sem hefur skilað árangri. Hugað var að því að koma upplýsingum um lungnasjúkraþjálfun til félagsmanna og voru sjúkraþjálfarar á Landspítala þar ómetanleg stoð og stytta. Samhliða var svo gengið í að fara þess á leit við Sjúkratryggingar Íslands að boðið væri upp á endurgreiðslu fjarsjúkraþjálfunar, sem var samþykkt í vikunni og er mikið gleðiefni.

Samhliða ofannefndum málum hafa farið fram samningaviðræður við bæði ríki og borg vegna kjarasamninga. Kjarasamningar við ríkið eru á lokametrunum. Svolítið lengra er í samkomulag við borgina.

---------------------------

Óhætt er að segja að það er við fordæmalausar og erfiðar aðstæður sem það kemur í ljós úr hverju fólk er gert. Þegar litið er yfir svið sjúkraþjálfunar er ljóst að sjúkraþjálfarar hafa heldur betur risið upp og tekið stöðu sína af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi.

Á Landspítalanum er starfsemin nú gjörbreytt. Sáralítil göngudeildarþjónusta er veitt á staðnum nema brýn bráðatilvik, en fólki veittar upplýsingar og fylgt eftir í gegnum síma. Starfsfólki er skipt upp í hópa sem blandast ekki, enginn samgangur er á milli deilda né starfsstöðva. Fjarfundir eru málið og jafnvel er hringt í inniliggjandi sjúklinga frekar en að fara inn á deildir. Sjúkraþjálfarar hafa reynst afar agaðir en jafnframt framúrskarandi sveigjanlegir til að takast á við óvenjulegar aðstæður í störfum sínum.

Reykjalundur er nú skilgreindur sem vara-sjúkrahús. Það varð fljótlega ljóst að ekki væri forsvaranlegt að halda áfram hefðbundinni endurhæfingu og tekur Reykjalundur því nú á móti sjúklingum t.d. af lyflæknis- og bæklunardeild Lsh og losar þannig pláss fyrir aðra sjúlinga á Lsh. Fyrri sjúklingar eru nú margir í Hreyfiseðilsprógrammi og er fylgt eftir í gegnum það af sjúkraþjálfurum Reykjalundar, sem jafnframt sinna endurhæfingu sem áður fór fram á Lsh. Hér er sama sagan, allir hafa lagst á eitt við að láta hlutina ganga og telja það ekki eftir sér að taka extra skref.

Háskólinn þurfti að bregðast við skyndilegri lokun og námsbrautin setti alla sína kennslu yfir í fjarkennslu á undraskömmum tíma. Svo vel vill til að 5. árs útskriftarnemar höfðu rétt lokið við sitt síðasta tímabil í klínisku námi þegar ósköpin dundu yfir og eru nú að klára sín meistaraverkefni. Það eru hins vegar 4. árs nemarnir sem voru rétt að hefja kliniskt námstímabil sem lentu verr í þessu. Tímabilið var stöðvað eftir 6 daga og nemar kallaðir til baka. Námskeið af hausti hafa verið færð fram, sem þýðir að klínsíka kennslan færist aftur til hausts. Það þýðir að mikið álag verður á klíníska kennslu í haust og hvetjum við alla sem möguleika eiga að leggjast á árarnar með námsbrautinni og taka nema næsta haust!

Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa þurft að draga verulega út sinni starfsemi og eru margir að verða fyrir þungum búsifjum af þeim völdum. Við vonum að þau úrræði sem Vinnumálastofnun býður upp á gagnist hópum, en þau eru ekki að fullu útfærð og enn er talsverð óvissa um það hvernig þau muni reynast.

Rétt er að minna á að sjúkraþjálfarar geta skráð sig í bakvarðarsveit heilbrigðiskerfisins og hvetjum við þá sem starfa lítið þessa dagana og eiga þess kost að leggja lið, að gera það.

Við erum öll almannavarnir!

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS