Sjúkraþjálfarar koma víða við

Fjölbreytni starfsstéttarinnar er talsverð og sjúkraþjálfarar eru víða

24.9.2021

Fjölbreytni starfsstéttarinnar er talsverð og sjúkraþjálfarar eru víða

Í síðastliðinni viku var margt um að vera í stéttinni, óhefðbundnara en hjá flestum.

Haraldur Sæmundsson sjúkraþjálfari og formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi tók þátt í fundi alþjóðasamtaka sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara (IPPTA) í síðustu viku, https://private.physio/. Þar kom margt áhugavert fram og eins og Haddi segir sjálfur: "Það var klárlega fróðlegt að fá svona innsýn frá fyrstu hendi hvernig málum er háttað víða um heiminn. Í samanburði við flesta held ég að við getum nú vel við unað með ýmislegt í okkar kerfi."


Föstudaginn 17. september var haldið námskeið fyrir klíníska kennara á vegum námsbrautar í sjúkraþjálfun. Þar sköpuðust góðar og gagnlegar umræður og þátttakendur voru um 60 talsins. VIð bendum á það sem Guðfinna Björnsdóttir, sem sér um kliníska námið, segir á fb-síðunni Sjúkraþjálfarar á Íslandi: "Mig langar að benda á vefsíðu sem Abigail Grover Snook, kennari við Námsbrautina á veg og vanda af. Síðan geymir ýmsar upplýsingar fyrir klíníska kennara og stundakennara. Vefslóðin er vefir.hi.is/stund Þar er til dæmis hægt að finna upptökur af námskeiðinu sem við héldum síðastliðinn föstudag fyrir klíníska kennara. Njótið!"

Screenshot-5-

Föstudaginn 17. september var haldinn ársfundur sjúkraþjálfara sem sinna hreyfiseðlinum og var hann í umsjá Auðar Ólafsdóttur sjúkraþjálfara hjá Þróunarmiðstöð Heilsugæslunnar. Fundurinn var bæði stað- og fjarfundur þar sem hreyfiseðilsúrræðið er í boði út um allt land. Samráðsvettvangur sem þessi er verkefninu mjög mikilvægur og nauðsynlegt er fyrir sjúkraþjálfara sem vinna áþessum vettvangi að hittast, samræma vinnulag, miðla upplýsingum og vinna að þróun úrræðisins. Margar góðar ákvarðanir voru teknar á fundinum en ein sú mikilvægasta var sú að nú sé tími til kominn að fella niður starfsheitið „hreyfistjóri“ og nota okkar faglega og fallega starfsheiti, sjúkraþjálfari. Verður unnið að því í samvinnu við yfirmenn stofnana. Ástæðan fyrir því að starfsheitið hreyfistjóri var búið til á sínum tíma var að hætta þótti á að skjólstæðingar héldu að þeir væru að fara í „hefðbundna“ sjúkraþjálfun og jafnvel að þeir sem væru að vísa í úrræðið héldu það einnig. Síðan þá eru liðin 7 ár og þá er kominn tími til breytinga

Það er ávallt ánægjulegt að fylgjast með grósku í faginu og við fögnum öllum ábendingum um það sem félagsfólk okkar er að taka sér fyrir hendur.