Staðan í kjölfar Covid-19

Það er ljóst að stéttin í heild sinni hefur staðið þessa raun með prýði og sjúkraþjálfarar hafa brugðist við algerlega fordæmalausum aðstæðum af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi

7.5.2020

Það er ljóst að stéttin í heild sinni hefur staðið þessa raun með prýði og sjúkraþjálfarar hafa brugðist við algerlega fordæmalausum aðstæðum af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi

Síðustu vikur hafa verið afar snúnar og óvenjulegar, svo vægt sé til orða tekið. Öll starfsemi sjúkraþjálfunar hefur raskast og sjúkraþjálfarar þurft að gjörbylta sinni starfsemi og/eða draga úr henni og jafnvel loka um stund.

Það er ljóst að stéttin í heild sinni hefur staðið þessa raun með prýði og sjúkraþjálfarar hafa brugðist við algerlega fordæmalausum aðstæðum af fagmennsku, ábyrgð og æðruleysi.

Landspitalinn er nú smám saman að koma sinni starfsemi aftur í samt horf, valkvæðar skurðaðgerðir eru að hefjast að nýju og meira hefðbundin sjúkraþjálfun í samræmi við það. Göngudeildarþjónusta er að opnast en margir sérhæfðir hópar, sérstaklega með viðkvæma skjólstæðinga munu bíða aðeins lengur. Starfsemi sjúkraþjálfunar á spítalanum hefur gengið vel þrátt fyrir allt á þessum undarlegu tímum, lykilorðin eru sveigjanleiki og aðlögunarhæfni starfsmanna og enginn sjúkraþjálfari hefur veikst af veirunni.

Á Reykjalundi er nú tekið við sjúklingum í bata eftir Covid-19 smit, sjúklingum sem eru lausir við veiruna en ekki geta farið strax heim. Þurfa þeir gjarnan mikla sjúkraþjálfun, bæði færniþjálfun og lungnaþjálfun. Áfram er tekið við bæklunarsjúklingum af Landspítalanum og nú sl mánudag var farið að kalla inn að nýju hefðbundna skjólstæðinga Reykjalundar. Unnið er með tvo hópa skjólstæðinga, með tveimur hópum starfsmanna og þannig gætt ítrustu varúðar. Miðað er við að full og hefðbundin starfsemi hefjist að loknum sumarleyfum.

Háskólinn mun ná að útskrifa sjúkraþjálfara eins og ætlunin var og munu tæplega 30 kollegar bætast í okkar hóp þetta árið. Meistaravarnir munu fara fram þann 26. maí nk. Heimilt verður að mæta á staðinn upp að vissum fjölda, en væntanlega verður einnig streymt frá vörnunum. Rétt er að minna á að vegna faraldursins þurfi að gjörbylta námi 4. ársins og kalla þau til baka úr klínískri kennslu. Þar verður til þess að næsta haust verður tveir hópar nema í einu í klínísku námi. Hér mun reyna á, og allir sem mögulega geta eru beðnir um að leggjast á árarnar með námsbrautinni og taka nema næsta haust.

Stofur sjúkraþjálfara hafa nú verið opnaðar að nýju og eru að fara af stað með sína starfsemi, hægt og bítandi. Farið er eftir sömu leiðbeiningum og voru í gildi áður en mesta bannið skall á, víða eru sjúkraþjálfarar að skipta sér niður á daga og/eða gæta að ítrustu sóttvörnum á allan hátt. Tækjasalir eru ekki enn opnir almenningi, en sjúkraþjálfarar geta verið með sínum skjólstæðingum í sal og heimilt er að vera með litla hópa sé gætt að 2m reglunni. Skv upplýsingum eru skjólstæðingar afar glaðir að geta aftur komið til meðferðar, en þó eru hópar sem teljast viðkæmir enn heima og mun HL stöðin t.d. ekki opna fyrr en síðar. Margir hafa nýtt sér ný tækifæri í fjar-sjúkraþjálfun og verður fróðlegt að heyra hvernig það hefur gengið og hvaða tækifæri slíkt hefur opnað.

Ný stofa, Stígandi, opnaði sl mánudag, en hún er stofnuð upp úr Heilsuborg. Gunnar Svanbergsson og Sigrún Konráðsdóttir eru eigendur og eru þau eins og aðrir sjálfstætt starfandi að keyra upp starfsemina með aðgát. Ég held að fáir hafi opnað stofu við svo sérstakar aðstæður. Eru þeim hér með færðar hamingjuóskir með opnun stöðvarinnar.

Rétt er að minna á að björninn er ekki unninn, við þurfum áfram að hafa aðgát, fara að reglum sóttvarnarlæknis og virða takmarkanir.

Við erum öll almannavarnir!

Unnur Pétursdóttir
Formaður FS